Þingflokksfundur Samfylkingarinnar er nú við það að hefjast á Hótel Nordica. Fundarefnið er aðeins eitt; breytingar á ríkisstjórn. „Þetta eru engar pólitískar hreinsanir,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, fyrir fundinn.
„Ég á bara von á einhverjum breytingum,“sagði Lúðvík Geirsson, þingmaður Samfylkingarinnar, þegar hann gekk inn á fundinn. „Maður veit auðvitað eitt og annað. En ekkert endanlegt. Nokkurn veginn það sama og ég hef lesið í blöðunum.“
Spurður að því hvernig honum litist á það sem hann hefði lesið í blöðunum sagði Lúðvík að alltaf mætti eiga von á einhverju nýju í stjórnmálum og sagðist ekki telja að verið væri að taka óþarfa áhættu með þessum breytingum. „Ég held að það sé bara eitt af því sem stjórnmál snúast um.“