Vegurinn norður í Árneshrepp á Ströndum er lokaður vegna snjóa en hann var opnaður á þriðjudaginn var. Áramótaraketturnar eru komnar að hafti við Veiðileysuháls og á að reyna að sækja þær í dag.
Mokað var á þriðjudaginn var og fóru snjómoksturstæki Vegagerðarinnar þá í gegnum 11 snjóflóð og var það stærsta um 2,5 metra djúpt og 50 metra breitt. Stefnt er að því að moka einu sinni fljótlega eftir áramótin ef ekki bætir mikið í snjóinn.
Reynt að sækja raketturnar í dag
Oddný Þórðardóttir, oddviti Árneshrepps, sagði að samkvæmt snjómokstursreglu væri mokað til áramóta og svo hæfist reglulegur mokstur aftur 20. mars. Mokað hefur verið tvisvar í viku meðan snjór hefur ekki verið of mikill.
„Það er ófært í Veiðileysuhálsi. Það er hægt að komast á jeppa hérna megin frá en ekki hægt að komast upp hálsinn að sunnanverðu,“ sagði Oddný. Hún vissi af fólki sem hafði hug á að koma norður um áramótin en hætti við.
Í Árneshreppi er snjóplógur sem er bilaður núna. Moksturstækið er notað innansveitar en fer stundum á móti snjóruðningstækjunum frá Hólmavík. Oddný taldi að viðgerð á plógnum lyki fljótlega og að opnað yrði suður úr á þriðjudag eða miðvikudag.
Svonefnd helmingamokstursregla er í gildi á þessari leið en samkvæmt henni getur t.d. sveitarfélagið pantað mokstur gegn því að borga helminginn. Það getur verið dýrt fyrir lítið sveitarfélag ef moksturinn hleypur á hundruðum þúsunda.
Flogið er tvisvar í viku á Gjögur og er flugið niðurgreitt af hinu opinbera, jafnt farþega- og vöruflug. Pósturinn kemur einnig með fluginu. Oddný sagði að flugið hefði verið í lagi. Ekki má flytja flugelda með fluginu, eru áramótaraketturnar komnar norður?
„Nei, þær eru þarna hinum megin við Veiðileysuhálsinn,“ sagði Oddný. „Þær verða væntanlega sóttar í dag.“ Hægt er að fara upp og niður hálsinn á vélsleða auk þess sem sérbúinn jeppi er til í sveitinni. Oddný sagði að almennt reyndi fólk að vera ánægt með lífið og tilveruna í Árneshreppi.
Kominn töluverður snjór
Jón Hörður Elíasson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Hólmavík, sagði að moksturinn á þriðjudaginn var hefði verið mjög stór.
„Við fórum í gegnum 11 snjóflóð, það er kominn töluverður snjór,“ sagði Jón Hörður. Hann benti á að leiðin væri löng og tæki marga klukkutíma að fara hana fram og aftur. Þá væri það spurning hvort senda ætti menn inn á svæðið ef þar væri snjóflóðahætta.
Hann sagði að samkvæmt snjómokstursreglunni mættu þeir moka til 5. janúar, væri ekki mikill snjór. Nú væri snjórinn kominn yfir þau mörk. Engu að síður væri stefnt að því að moka einu sinni eftir áramótin ef ekki bætti mikið í áður en moksturinn hefst aftur í mars.
Moka má einu sinni í viku í allan vetur samkvæmt helmingamokstursreglunni. Jón Hörður sagði að moksturinn á þriðjudag hefði náð fram á miðvikudag og kostað nálægt 450 þúsund krónum. Það er því ljóst að það yrði kostnaðarsamt fyrir fámennt sveitarfélag að halda veginum opnum yfir háveturinn.