Mikill hiti er í fundarmönnum á fundi stjórnar Samfylkingarinnar sem hófst klukkan sjö í kvöld og stendur ennþá.
Fólk fer út af fundinum og fundar í skotum og herbergjum á Hótel Nordica. Þannig hefur Árni Páll Árnason ítrekað sést á tali við Kristján Möller og Þórunni Sveinbjarnardóttur.
„Ég er ennþá á fundi og ætla ekki að tjá mig núna,“ sagði Kristján þegar hann var spurður að því hvers vegna hann hefði greitt atkvæði gegn tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur.
Sigmundur Ernir Rúnarsson greiddi einnig atkvæði á móti tillögunni og sagðist ekki vilja ræða ástæður þess að svo komnu máli.