„Það er bara kominn tími á að breyta til í ríkisstjórninni. Ég er ánægður með að ráðherrum skuli fækka. Það er bara bjánaskapur að vera með svona marga ráðherra á þessari litlu eyju,“ sagði Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, þegar hann mætti á þingflokksfund flokksins rétt fyrir klukkan sex.
Aðspurður hvort samkomulagið við Samfylkinguna um breytta ríkisstjórn styrkti stöðu VG í stjórninni sagði hann: „Hún er svo sterk, ég efast um að hún verði sterkari.“ Þá sagðist hann ekki telja þörf á því að fá Hreyfinguna til þess að styðja ríkisstjórnina en allir væru hins vegar velkomnir um borð.
Aðrir þingmenn VG gáfu ekki kost á viðtali fyrir þingflokksfundinn sem nú stendur yfir.