Stjórnarmenn í Vinstri hreyfingunni - grænu framboði mótmæla harðlega vinnubrögðum forystu flokksins sem birtist í fundarboði um stjórnarfund á næstsíðasta degi ársins. Þetta kemur fram í tilkynningu sem þeir hafa sent frá sér.
„Fundurinn er boðaður með sólarhrings fyrirvara og við þær aðstæður að nánast útilokað er fyrir stjórnarmenn á landsbyggðinni að komast til fundar.
Undirrituð benda ennfremur á að stjórn VG tók samskipti ráðherra ríkisstjórnarinnar og mögulegar breytingar á ráðherraskipan fyrir á stjórnarfundi sem haldinn var 9. þessa mánaðar. Þar kom fram eindreginn vilji til þess að ráðherrar flokksins tækju höndum saman og styrktu hver annan í störfum sínum.
Breytingar á ráðherraskipan VG sem virðast að fyrirmælum samstarfsflokks í ríkisstjórn eru óásættanlegar," segir í tilkynningu frá stjórnarmönnunum sem ekki mættu á fundinn í kvöld.
„Þannig mótmælum við því ferli sem nú á sér stað og gengur þvert gegn samþykktum æðstu stofnana flokksins," segir í yfirlýsingu sem Arndís Soffía Sigurðardóttir, Árni Steinar Jóhannsson, Þorleifur Gunnlaugsson og Þórarinn Magnússon rita undir.