VG og Samfylking geti sameinast

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason.

„Það er að verða bláköld staðreynd að mjög lítill munur er á þessum tveimur flokkum, Samfylkingunni og Vinstri grænum, og spurning hvort sameining þeirra liggi í loftinu. Í þeim málaflokkum þar sem Vinstri grænir höfðu sérstöðu og trúverðugleika til að standa á þeirri sérstöðu hefur forystan gefið eftir,“ segir Ásmundur Einar Daðason þingmaður um þróunina hjá fyrrum flokki sínum, VG.  

Ásmundur Einar segir allt stefna í breytingar á ráðherraliðinu að kröfu Samfylkingar.

„Það blasir við að verið er að stokka upp í röðum Vinstri grænna að kröfu Samfylkingarinnar og er með ólíkindum að sjá hvernig formaður og forysta Vinstri grænna ítrekað lætur undan kröfum samstarfsflokksins. Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með því hvernig Samfylkingin hefur hamast á Jóni Bjarnasyni vegna skoðana hans í Evrópusambandsmálum án þess að formaður flokksins svo lítið sem lyfti litla fingri honum til varnar.

Margir hljóta einnig að spyrja sig hvort þjóðin myndi ekki fremur vilja losna við Jóhönnu og Steingrím en þá ráðherra sem rætt er um að setja út nú,“ segir Ásmundur Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert