Horfur eru á ágætu flugeldaveðri um allt land í kvöld. Að sögn veðurfræðings á vakt á spádeild Veðurstofu Íslands verður hæglætisveður, fimm til tíu metrar á sekúndu í mesta lagi á láglendi, en kannski meiri vindur en það á hálendi.
Sunnan- og vestanlands er spáð éljagangi en úrkomulítið verður annars staðar. Skýjað verður fram eftir degi en jafnvel gæti létt til norðan- og austanlands í kvöld. Líklegt er að besta flugeldaveðrið verði einmitt á Norður- og Austurlandi.
Hitinn fer undir frostmark í kvöld og úrkoma mun því fara að falla sem snjór, en það þýðir að talsverð hálka gæti orðið víða seint í kvöld og í nótt. Færð á vegum gæti því orðið torveld áður en þjónusta á vegum byrjar aftur snemma að morgni nýársdags.