Engar frekari viðræður við Hreyfinguna

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Nei, það hefur ekkert verið í gangi,“ segir Þór Saari, þingflokksformaður Hreyfingarinnar, aðspurður hvort einhverjar frekari viðræður hafi átt sér stað við forystumenn ríkisstjórnarflokkanna um að Hreyfingin veiti stjórninni stuðning.

Þór segir að ekkert hafi frekar gerst síðan á miðvikudagskvöldið þegar viðræðum var hætt án þess að efnislegri niðurstöðu væri náð. „Við náðum ekki saman þá og þar við situr.“

Aðspurður um breytingarnar á ríkisstjórninni segir Þór að þær séu mjög í anda Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. „Hann heldur bara áfram að sölsa undir sig völd.“

Meðal annars er gert ráð fyrir því að Steingrímur láti af embætti fjármálaráðherra og taki í kjölfarið við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og efnahags- og viðskiptaráðuneytinu.

„Það kom mér á óvart að hann skyldi hætta sem fjármálaráðherra, en það er búið að semja fjárlög næsta árs og hann vill ekki leggja undir sína pólitísku framtíð fjárlög ársins 2013 enda er það kosningaár,“ segir Þór.

Hann segist telja að hluti óánægjunnar innan Samfylkingarinnar með breytingarnar skýrist af því að flokkurinn þurfi nú að axla ábyrgð á næstu fjárlögum í aðdraganda þingkosninga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert