Guðlaugur Þór: Jóni fórnað fyrir makríldeiluna

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson Ómar Óskarsson

Jóni Bjarnasyni var meðal annars vikið úr stól sjávarútvegsráðherra til að tryggja að nýr maður færi með ráðuneytið þegar Ísland, Noregur og ESB setjast að samningaborðinu í makríldeilunni 20. janúar næstkomandi. Þetta er mat Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Guðlaugur Þór ræddi brottvikningu Jóns úr stjórninni í áramótaþætti Hrafnaþings, viðtalsþætti á ÍNN.

Krafa ESB að gefið verði eftir

„Stærsta málið snýr að Evrópusambandinu. Jóhanna er aðeins að hugsa um einn hlut og það er Jóhanna Sigurðardóttir. ... Hún vill klára þetta ESB-mál... 20 janúar verða samningaviðræður Íslands, Noregs og ESB út af makrílmálinu. ... Ef við gefum ekki verulega eftir okkar kröfum er veruleg hætta á að samnningaviðræður [við ESB] fari á ís eða að það verði beitt refsiaðgerðum gegn íslandi,“ sagði Guðlaugur Þór og rökstuddi þannig hvers vegna Samfylkingin hefði ekki talið stætt á því að hafa Jón áfram í stól ráðherra.

Hluti af næstu kosningabaráttu

Þá leiddi Guðlaugur Þór líkur að því að Steingrímur J. Sigfússon hefði látið af fjármálaráðuneytinu til að geta notið þess sem atvinnumálaráðherra að fé yrði greitt úr Landsbankanum á næsta ári sem meðal annars yrði varið í atvinnumálin.

Steingrímur myndi þá njóta þess sem atvinnumálaráðherra að geta kynnt ný verkefni og við það uppskorið vinsældir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert