Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að Íslandi séu allir vegir færir.„ Metum hvar tækifærin liggja og hvernig við getum nýtt þau, sjálfum okkur og öðrum til hagsbóta. Mótun framtíðarinnar er í höndum okkar allra." Þetta kom fram í ávarpi forsætisráðherra í Sjónvarpinu í kvöld.
Að sögn forsætisráðherra munum við á næstu misserum móta okkur nýja auðlindastefnu, setja á fót auðlindasjóð og innleiða hér stefnu hins græna hagkerfis með áherslu á hreina náttúru, sjálfbæran orkubúskap, nýsköpun og menntun. Þannig geti Ísland skipað sér í fremstu röð á alþjóðavettvangi sem grænt hagkerfi.
Staða Íslands kortlögð heildstætt
„Það mun skipta sköpum fyrir framþróun lífs á jörðinni hvernig okkur tekst á næstu tíu árum að stemma stigu við þessum loftslagsbreytingum. Mikilvægt er að við Íslendingar tökum þessi mál föstum tökum, en að óbreyttu er talið að jöklar hér á landi gætu horfið að mestu á næstu tveimur öldum.
M.a. í ljósi alls þessa er afar mikilvægt að við metum á næstu misserum stöðu Íslands með tilliti til alþjóðlegrar þróunar næstu áratugi. Ég hef því ákveðið að fela hópi vísindamanna og sérfræðinga að kortleggja heildstætt, stöðu Íslands og sóknarfæri í víðu samhengi, svo sem á sviði umhverfismála, orkumála, efnahags- og atvinnumála, menntamála og á fleiri sviðum sem geta haft áhrif á stöðu og vöxt landsins til lengri tíma litið.
Ég mun tryggja að slík vinna hefjist nú í upphafi nýs árs þannig að við Íslendingar getum farið skipulega yfir tækifæri og ógnanir í alþjóðlegu samhengi og sett okkur markmið til þess að mæta þeim.
Víðtækt og vandað mat á stöðu Íslands mun hjálpa okkur að svara stórum spurningum um framtíð okkar og móta áherslur í því samfélagi sem við viljum sjá þróast hér á landi á þessari öld," sagði Jóhanna í áramótaávarpi sínu í Sjónvarpinu í kvöld.
Atburðir í Noregi snertu alla Íslendinga
Hún minntist í ávarpinu sínu á þá alþjóðlegu atburði sem hafa vakið Íslendinga til umhugsunar og minnt þá á að þeir eru hluti af samfélagi þjóða.
„Hörmulegir atburðir í Útey og í Ósló, hjá frændum okkar og vinum Norðmönnum, snertu hjörtu okkar allra.
Í meiri fjarlægð höfum við fylgst með hinu svonefnda arabíska vori og þeirri áhrifamiklu lýðræðisvakningu sem hefur átt sér stað í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum.
Þá hafa ýmsar þjóðir svo sem Japanir glímt við afleiðingar náttúruhamfara eins og við Íslendingar höfum einnig ítrekað gert af dugnaði og æðruleysi undanfarin misseri.
Allir þessi atburðir hafa haft áhrif um heim allan," sagði Jóhanna.
Full ástæða til að gleðjast
Jóhanna fjallaði um efnahagsmálin í ávarpi sínu en það er von hennar og trú nú þegar mesta efnahagsháskanum hefur verið bægt frá, finni fólk í auknum mæli fyrir batnandi hag fjölskyldna og fyrirtækja.
„Kröftugur hagvöxtur hefur leyst samdrátt af hólmi og allar forsendur eru fyrir áframhaldandi lífskjarasókn hér á landi.
Framtíð Íslands er björt ef vel verður á málum haldið.
Þegar við horfum til baka yfir árið 2011 er full ástæða til þess að gleðjast yfir árangri okkar og stöðu.
Við getum glaðst yfir þeirri staðreynd að hagur Íslendinga batnar nú hraðar en flestra annarra þjóða, kaupmáttur vex, dregið hefur úr atvinnuleysi og lífskjör þjóðarinnar munu áfram fara batnandi.
Við getum glaðst yfir því að félagslegt réttlæti og jafnrétti kynjanna mælist nú hvað mest á Íslandi í alþjóðlegum samanburði og að efnahagslegur jöfnuður eykst hér hröðum skrefum.
Við getum glaðst yfir afrekum okkar glæsilega íþróttafólks, sem sýnir hvað eftir annað að við Íslendingar getum skipað okkur í fremstu röð meðal þjóða. Þetta íþrótta- og afreksfólk er góð fyrirmynd börnum okkar og unglingum, sem sjá að ástundun og iðni leggur grunn að góðum árangri.
Við getum glaðst yfir grósku í íslensku menningarlífi sem aldrei fyrr; á sviði tónlistar, bókmennta, kvikmyndagerðar, myndlistar og hönnunar.
Við getum glaðst yfir því, að fyrirtæki sem byggja á íslensku hugviti skipi sér í fremstu röð á sínu sviði í alþjóðlegum samanburði. Starfsemi sem byggir á hugviti og menntun þjóðarinnar er afar mikilvæg í þeirri vistvænu atvinnuuppbyggingu sem við eigum að stefna að.
Við getum glaðst yfir þeim góða árangri sem íslensk ferðaþjónusta hefur náð á árinu og því að Ísland hefur ítrekað verið valið spennandi ferðamannastaður af virtum alþjóðlegum aðilum.
Ferðaþjónustan og aðrar vaxandi greinar mynda ásamt hefðbundnum grunnatvinnuvegum þá fjölbreyttu flóru atvinnulífs sem nauðsynleg er samfélögum sem vilja vaxa og dafna. Og útflutningsgreinarnar, sjávarútvegur og áliðnaður, hafa ekki síður lagt til þess góða hagvaxtar sem hér hefur verið á liðnu ári," segir Jóhanna.