Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir ríkisstjórnina veikari eftir breytingarnar fyrr í dag. Í ljós eigi eftir að koma hvort hún njóti stuðnings meirihluta þingmanna í einstökum málum. Þetta kom fram í máli Ólafar í Kryddsíldarþætti Stöðvar 2.
Hún bendir á að fyrir breytingar hafi ríkisstjórnin haft nauman meirihluta eða eins atkvæðis.
Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að viðræðurnar við ríkisstjórnina hafi gengið ágætlega. Ekki hafi verið rætt um að þingmenn Hreyfingarinnar myndu sitja hjá í ákveðnum málum. Eins hafi ekki verið rætt um hvort þingmenn myndu styðja vantrauststillögu ef slík tillaga kæmi fram. Hún segist ekki sjá eftir Árna Páli Árnasyni úr ráðherrastól þar sem hún hafi alls ekki verið ánægð með störf hans undanfarið.
Steingrímur J. Sigfússon segist ekki hafa nokkra trú á öðru en að ríkisstjórnin myndi standa af sér vantraust ef tillaga um slíkt kemur fram.