Ríkisstjórnin og forystan nær fallin

Kristrún Heimisdóttir.
Kristrún Heimisdóttir. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Tillaga um breytingar á ríkisstjórninni féll í raun á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í gær að sögn Kristrúnar Heimisdóttur sem gegnt hefur stöðu aðstoðarmanns Árna Páls Árnasonar, fráfarandi efnahags- og viðskiptaráðherra. Hún segir á Facebook-síðu sinni að bæði ríkisstjórnin og forysta flokksins hafi verið við það að falla á fundinum þar til Árni Páll hafi flutt ræðu sem hafi afstýrt því.

Facebook-færsla Kristrúnar fer hér á eftir í heild:

„Ráðherrakapall Jóhönnu (og Dags og Hrannars) var svo ruglingslegur, ráðalaus, óviss og órökstudd ferð án fyrirheits að enginn var hrifinn og hann í raun féll í umræðu á sögulegum flokkstjórnarfundi Sf í gær. Ég hef verið á þeim öllum frá stofnun: Aldrei áður hefur neitt þessu líkt gerst. Klukkan hálfníu var svo komið að forysta og ríkisstjórn væru að falla á fundinum líka og fór um marga föla fyrirliða. Það þurfti ræðu Árna Páls til bjargar og höfðu þó allar hvellandi básúnur Össurar og annarra sjálfskipaðra yfirkonfrensráða glumið yfir salinn og hótunum verið beitt á jafnt á ungliða sem eldri borgara. Tillaga um aukalandsfund í vor til kjörs á nýrri forystu hlaut afgreiðslu. Ný forysta verður væntanlega kosin í vor. Þá kemur flokksstjórn aftur saman í janúar til að krefjast stefnu og stjórnfestu í stað fyrirhugaðs mánaða flöskustúts á Arnarhóli um á hvaða ráðherrum í hlutastörfum og hvernig ýmis helstu þjóðarhagsmunamál lendi s.s. efnahags- atvinnu-, auðlinda- og nýsköpunarmál. Á fundinum í gær var því miður ekki staðfest hver yrði fjármálaráðherra landsins eftir sex mánuði. AGS, ESB, lánshæfismatsfyrirtækin og norrænu lánveitendur ríkissjóðs verða „hrifnir“.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka