„Það var svolítið erfitt fyrir hana að átta sig á því að hún myndi ekki keppa á skíðum aftur og að líf hennar hefði tekið 180 gráða beygju. Það kom svolítið í dag. En hún var fljót að jafna sig á því og við bjuggum til jákvæða hluti í kringum það sem var að gerast. Það er svakalegt keppnisskap í henni,“ sagði Guðmundur Á. Björnsson kjálkaskurðlæknir um gærdaginn í lífi dóttur sinnar, Fanneyjar, sem lamaðist fyrir neðan háls í skíðaslysi í Noregi á aðfangadag.
„Nú í morgun [gærmorgun] gat hún fyrst örlítið hreyft olnbogann til hliðar á vinstri hendinni. Hún er með gifsið á þeirri hægri. Hún gat þetta ekki áður og greip auk þess miklu fastar með fingrunum en hún gat daginn áður. Þetta var langbesti dagurinn hennar. Hún hefur verið tekin af verkalyfjum og er orðin skýrari. Við höfum líka farið yfir andlegu hliðina. Allt gengur þetta framar vonum. Það hefur komið meiri styrkur í fæturna. Svo er að koma meiri vöðvakraftur í handleggina þótt veikir séu enn sem komið er. Ég var ekki á staðnum þegar hún var reist upp í fyrsta skiptið. Fanney er ótrúlega sterk.“