Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist sannfærður um að Ólafur Ragnar Grímsson muni bjóða sig fram til endurkjörs í embætti forseta Íslands á næsta ári. Kosningabaráttan sé greinilega hafin hjá honum.
Hvorki Jóhanna Sigurðardóttir né Steingrímur J. Sigfússon vildu tjá sig um það í Kryddsíldinni á Stöð 2 í dag hvort Ólafur Ragnar myndi bjóða sig fram á næsta ári. Segir Jóhanna ómögulegt að segja til um hvaða ákvarðanir Ólafur Ragnar taki.
Margrét Tryggvadóttir, Hreyfingunni, vildi ekki spá til um hvað Ólafur Ragnar geri en Ólöf Nordal, Sjálfstæðisflokki, taldi líklegt að Ólafur Ragnar myndi bjóða sig fram.
Sigmundur Davíð segir að það verði ekki af Ólafi Ragnari tekið að hann hafi staðið sig vel og hann hafi stigið inn í tómarúm ríkisstjórnarinnar.
Fyrr í þættinum var Ólafur Ragnar spurður að því hvort hann myndi bjóða sig fram á ný og vildi hann ekki gefa það upp. Hins vegar muni hann koma inn á þetta í nýársávarpi sínu á morgun.