„Össur er væntanlega að undirbúa framboð... Jóhanna er ekki tilbúin að hætta,“ sagði Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í áramótaþætti Hrafnaþings, viðræðuþáttar á ÍNN. Tryggvi Þór telur dauðastríð ríkisstjórnarinnar hafið.
Tilefni ummælanna er sú yfirlýsing Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra að komið væri að kynslóðaskiptum í Samfylkingunni og að nýr formaður þyrfti að vera tveim kynslóðum yngri en Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
En á fréttavef Morgunblaðsins hefur verið fjallað um þau foringjaefni sem Össur taldi upp í áramótaviðtali við Viðskipablaðið.
Daður við marga flokka
Tryggvi Þór sagði ríkisstjórnina hafa daðrað við Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Hreyfinguna á árinu.
„Þetta fólk hefur sjálft enga trú á þessu. Það lætur hverjum degi nægja sínar þjáningar... Ég held að þetta séu dauðateygjur sem við erum að sjá núna. Þessi ríkisstjórn getur ekki neitt, hún getur ekki einu sinni dáið ... Hvar er virðingin hjá þessu fólki,“ sagði Tryggvi Þór.
Betra fólk í VG
Hann bar saman hæfni einstaklinga í stjórnarflokkunum.
„Mannvalið [í VG] ... er miklu meira en hjá Samfylkingunni ef maður raðar upp einstaklingum. Mannvalið er meira í Vinstri grænum,“ sagði Tryggvi Þór.
Lýsti Tryggvi Þór því jafnframt yfir að hann bæri kvíðboga fyrir þróuninni í Evrópu. Allir hlytu að vona að allt færi þar ekki á versta veg.