Ólafur Ragnar maður ársins á Stöð 2

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Golli

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var í dag valinn maður ársins á Stöð 2. Valið var tilkynnt í Kryddsíldarþætti Stöðvar 2 í dag.

Ólafur Ragnar sagði í þættinum að sú spurning hefði brunnið á sér hvort hann ætti að bjóða sig fram til endurkjörs í embætti forseta Íslands.

Mjög margt fólk hefði haft samband við sig og hvatt sig til þess að bjóða sig fram. Ólafur Ragnar gaf ekki upp í þættinum hvort hann myndi bjóða sig fram næsta sumar og vildi heldur ekki upplýsa hvort það kæmi fram í nýársávarpi hans á morgun. Ólafur Ragnar sagðist geta upplýst að hann kæmi inn á þetta í ávarpinu á morgun.

Næsta sumar hefur Ólafur Ragnar gegnt embætti forseta Íslands í sextán ár.

Aðspurður hvort Ólafur Ragnar óttaðist niðurstöðu ESA í Icesave-málinu svaraði hann því neitandi. Málið snerist ekki um regluverk fjármálakerfisins eða ákvarðanir í einhverjum eftirstofnunum heldur um vilja þjóðarinnar. Ákvörðunin hefði ekki verið auðveld og hann óskaði engum að þurfa að standa frammi fyrir slíkri ákvörðun. Samningarnir tveir sem komu inn á hans borð hefðu verið um margt ólíkir.

Hann segir samband sitt við Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon með miklum ágætum og þau hafi einmitt rifjað það upp í morgun á ríkisráðsfundi að þau hafi setið við þetta sama borð sem ráðherrar í ríkisstjórn fyrir um tuttugu árum. Hann segir engum blöðum um að fletta að ríkisstjórn sú sem situr nú hafi glímt við meiri erfiðleika en nokkur önnur ríkisstjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert