Agndofa yfir ríkisstjórnarkaplinum

Pétur H. Blöndal, alþingismaður.
Pétur H. Blöndal, alþingismaður. mbl.is

„Ég er agndofa eftir atburði gamlársdags,“ segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni. Vísar hann þar til breytinganna sem gerðar voru í lok síðasta árs á ríkisstjórninni.

Þar var meðal annars ákveðið að Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, yrði atvinnuvegaráðherra og tæki sem slíkur við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og efnahags- og viðskiptaráðuneytinu auk hluta af verkefnum iðnaðarráðuneytisins.

„Nú á Steingrímur sem efnahagsráðherra að vinna í vörnum Icesave,“ segir Pétur og segir Steingrím geta staðið frammi fyrir ákveðinni freistingu. „Ef hann kemst að glimrandi niðurstöðu fyrir íslensku þjóðina þá mun sagan dæma hann hart fyrir að hafa skrifað undir upphaflegu Icesave-samningana (og jafnvel ekki bara sagan). Ef hann nær lakari niðurstöðu þá voru varnaðarorðin hans rétt sem og allar undirskriftir og lagasetningar. En þjóðinni blæðir.“

Síðar segir Pétur í athugasemd við eigin færslu: „Svo er Ólafur [Ragnar Grímsson] jafnvel að hætta sem forseti en hann hlustaði þó á þjóðina í tvígang og hefur staðið sig miklu betur en öll utanríkisþjónustan samanlagt í að verja þjóðina í þessu máli í erlendum fjölmiðlum.“

Facebook-síða Péturs H. Blöndals

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert