Björn: Það mun muna um forsetann

Björn Bjarnason
Björn Bjarnason Kristinn Ingvarsson

„Styrmir [Gunnarsson] telur að það muni um Ólaf Ragnar láti hann að sér kveða gegn aðildinni að ESB. Undir það geta allir tekið og augljóst er að ESB-aðildarsinnum á borð við Guðmund Andra og Eið Guðnason stendur ekki á sama,“ skrifar Björn Bjarnason, fyrrv. dómsmálaráðherra, í pistli á vef Evrópuvaktarinnar.

Markmiðið með pistli Björns er tvíþætt. Annars vegar að bregðast við umræðu um að forsetinn kunni að sækjast eftir endurkjöri og hins vegar að bregðast við þeirri spurningu Eiðs Guðnasonar, fyrrv. sjónvarpsmanns og sendiherra, hvort Björn hyggist „krjúpa“ fyrir forsetanum, líkt og Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri Morgunblaðsins, hafi gert að undanförnu.

Sakar forsetann um einangrunarstefnu

Í skrifunum sem Björn svarar veitist Eiður að forsetanum og sakar hann að vilja einangra Ísland. „Nú ætlar Óalfur [innsk. misritun er sendiherrans] Ragnar Grímsson að róa á ný mið. Hinn margyfirlýsti alþjóðasinni ætlar að nýta sér andstöðuna við ESB og vinna gegn því að Íslendingar starfi náið með öðrum Evrópuþjóðum. Auka einangrun okkar meðal þjóðanna. Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Mogga er þegar sestur við fótskör Ólafs Ragnars. Þar er líka pláss fyrir Davíð og Björn. Munu þeir líka krjúpa?“ skrifar Eiður samkvæmt beinni tilvitnun Björns.

Segir ESB-spuna ætlað að drepa málum á dreif

Björn víkur í niðurlagi pistils síns að hugsanlegu mikilvægi forsetans í umræðum um Evrópumál: „Styrmir telur að það muni um Ólaf Ragnar láti hann að sér kveða gegn aðildinni að ESB. Undir það geta allir tekið og augljóst er að ESB-aðildarsinnum á borð við Guðmund Andra og Eið Guðnason stendur ekki á sama. Styrmir Gunnarsson hefur staðið á sínu gagnvart Ólafi Ragnari, Davíð Oddsson hefur einnig gert það og enginn sem les það sem ég hef skrifað í áranna rás um Ólaf Ragnar þarf að fara í grafgötur um skoðanir mínar.

Það er stórundarlegt hve málflutningur ESB-aðildarsinna verður tilfinningaríkur í hvert sinn sem þeir telja að sér þrengt. Fyrsta spurningin er auðvitað sú, hvort Guðmundur Andri hafi rétt fyrir sér um að Ólafur Ragnar ætli að ganga í lið með okkur sem höfnum aðild að ESB. Önnur spurning er sú hvaða rök Ólafur Ragnar ætli að nota máli sínu til stuðnings. Við þrír sjálfstæðismenn sem Eiður nefnir höfum allir skýrt afstöðu okkar í ræðu og riti. Við þurfum hvorki að fara í smiðju til Ólafs Ragnars né krjúpa fyrir honum til að leita raka gegn ESB-aðild.

ESB-aðildarsinnar hafa sérhæft sig í því síðan aðildarumsóknin var samþykkt að ræða annað en efni málsins. Þetta verður æ skýrara eftir því sem ástandið versnar innan ESB og óvissan um eðli framtíðarsamstarfs ríkjanna eykst. Spunaviðbrögðin við yfirlýsingu Ólafs Ragnars eru enn liður í því að drepa umræðum um hina misráðnu aðildarumsókn á dreif.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert