Skjárinn hefur keypt útvarpsstöðina Kanann af Einari Bárðarsyni. Skjárinn rekur sjónvarpsstöðvarnar Skjá einn, Skjá golf, Skjá bíó og Skjá heim og ætlar með kaupum á Kananum að renna fleiri stoðum undir reksturinn að sögn Friðriks Friðrikssonar, framkvæmdastjóra Skjásins. „Við erum að gera okkur gildandi víðar. Þetta er sóknaraðgerð,“ segir Friðrik.
Engar breytingar eru ákveðnar á rekstri Kanans til að byrja með að sögn Friðriks. „Hann hefur sinn sess og farsælast að láta aðeins koma í ljós hvernig það spilast. Einar Bárðarson kemur yfir á Skjáinn og leiðir útvarpssviðið hjá okkur. Það starfsfólk sem er á Kananum núna kemur líka yfir.“