Íslenska leiðin var best

Krafan um nýtt fjármálakerfi var eitt af leiðarstefum búsáhaldabyltingarinnar.
Krafan um nýtt fjármálakerfi var eitt af leiðarstefum búsáhaldabyltingarinnar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslendingar brugðust með réttari hætti við efnahagshruninu en Írar og Lettar með því að láta bankana fara í gjaldþrot. Þetta er niðurstaða hagfræðingsins Zsolts Darvas sem fór fyrir rannsókn á viðbrögðum ríkjanna þriggja við fjármálakreppunni.

Fjallað er um málið á vef Irish Independent og segir þar að Darvas starfi hjá hinni áhrifamiklu hugveitu Bruegel, sem lesa má um hér. Geta áhugasamir nálgast skýrsluna með því að smella hér.

Löndin þrjú eiga það sameiginleigt að hafa á þensluárunum miklu horft fram á útlánabólu með tilheyrandi hækkunum á fasteignamarkaði, spákaupmennsku og ójafnvægi á fjárfestingarmarkaði. Þegar bólan hafi sprungið hafi ríkin þrjú leitað til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Mildasta lendingin á Íslandi

„Reynslan af hruni hinna þriggja risavöxnu íslensku banka bendir til að það geti verið rétt val að láta banka sem fylgja röngu viðskiptalíkani fara í þrot,“ segir í skýrslu hugveitunnar.

Segir þar einnig að Lettar hafi gengið í gegnum meiri samdrátt en Írar og Íslendingar og að Ísland hafi almennt farið best út úr kreppunni.

Þannig sé samdrátturinn á Írlandi sá fimmti mesti hjá þjóðríki í kreppunni en sá sjöundi mesti á Íslandi, auk þess sem atvinnuleysi sé minnst á Íslandi í löndunum þremur eða um 5%, að sögn Irish Independent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert