„Það er alveg ljóst að Evrópusambandsmálið verður eitt aðalmál forsetakosninganna í sumar, hver svo sem þar verður í framboði,“ segir Jón Bjarnason, fráfarandi sjávarútvegsráðherra, sem telur fullvíst að ESB-umsóknin blandist í forsetakosningarnar.
Sem kunnugt er vék Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, að þörfinni fyrir að halda vel á málstað Íslands í nýársávarpi sínu í sama mund og hann nefndi aðildarumsóknina að ESB.
Til upprifjunar sagði forsetinn orðrétt:
„Að dómi margra eru tímarnir hins vegar markaðir verulegri óvissu og er þá einkum vísað til stöðu stofnana og samtaka á vettvangi þjóðmálanna, að stjórnarskráin hafi verið sett í deiglu breytinga, fullveldi Íslands orðið dagskrárefni vegna viðræðna við Evrópuríki og áríðandi sé að málstaður þjóðarinnar birtist skýrt í alþjóðlegri umfjöllun.“
Metur forsetann mikils
Jón kveðst ekki vilja gefa opinberlega upp hvort hann kjósi að forsetinn sitji áfram. Hann sé hins vegar reiðubúinn að lýsa yfir mikilli ánægju með framgöngu forsetans.
„Ég met mjög mikils hans eindregnu afstöðu gagnvart umsókinni um aðild að Evrópusambandinu. Forsetinn hefur lýst sig andvígan aðildinni og lagt áherslu á hversu sterk staða þjóðarinnar er sem sjálfstæð og fullvalda þjóð og að í þeirri stöðu felist framtíðarmöguleikar og styrkur.
Ég er mjög sáttur við þær áherslur og það var ekki að ástæðulausu sem forsetinn kom sérstaklega inn á þetta í sínu nýársávarpi.
Það er alveg ljóst að Evrópusambandsmálið verður eitt aðalmál forsetakosninganna í sumar, hver svo sem þar verður í framboði. Þetta er eitt stærsta mál þjóðarinnar. Við sjáum að það meira að segja hriktir í stoðum ríkisstjórnarinnar um áramótin út af ESB-málinu. Annars hefðu þessar hrókeringar ekki verið taldar nauðsynlegar.
Það er því mjög eðlilegt að forsetinn komi inn á þetta mál í ávarpi sínu á nýársdag.“
Hafði það gott um helgina
Á föstudaginn var þurfti Jón að taka pokann sinn sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Engu að síður ber hann sig vel og segir áramótahelgina hafa verið ánægjulega í faðmi fjölskyldunnar.
„Ég hafði það ágætt með fjölskyldunni. Nú er ég búinn að tæma skrifstofuna. Þeim kafla er lokið. Öllum er ljóst að brotthvarf mitt úr ríkisstjórn tengist með beinum hætti átökunum um ferðina inn í Evrópusambandið.
Það er ekki að ástæðulausu sem forsetinn nefndi ESB-umsóknina því það er alveg ljóst að mér hefði ekki verið vikið úr ríkisstjórn með svo miklum asa og með svo miklum látum ef að það væri ekki fyrir átökin um Evrópusambandið og loforð forystu Vinstri grænna í þeim efnum,“ segir Jón Bjarnason.