Sakar Ólaf Ragnar um óvirðingu við þjóðina

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is

„Ólafur Ragnar sýnir þjóðinni óvirðingu með því að segja ekki skýrt og skorinort af eða á – hvort hann ætlar að hætta eða ekki,“ segir Eiður Guðnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, á heimasíðu sinni í dag um þá ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, að ætla ekki að sækjast eftir endurkjöri í forsetakosningunum í vor.

Nokkur umræða hefur skapast í kjölfar nýársávarps Ólafs Ragnars, þar sem hann lýsti yfir ákvörðun sinni, um það hvort yfirlýsingin hafi verið nógu afgerandi eða hvort Ólafur hafi gefið í skyn að hann gæti verið reiðubúinn að sitja lengur sem forseti ef vilji væri fyrir því á meðal þjóðarinnar.

Eiður segir ennfremur að hugur Ólafs hafi alltaf staðið í þá átt að verða forsætisráðherra en hann hafi hins vegar orðið forseti. Segir hann Gunnar Thoroddsen, fyrrum forsætisráðherra, hafa verið fyrirmynd Ólafs sem hann hafi dáð mjög. „Minningarorð sem Ólafur skrifaði um Gunnar voru í þeim anda hann hefði eiginlega verið pólitískur fóstursonur Gunnars,“ skrifar Eiður.

„En draumur Ólafs Ragnars um að verða forsætisráðherra rættist ekki. Hann varð forseti. Ekki forsætisráðherra. Nú skynjar Ólafur Ragnar tómarúm á sviði stjórnmálanna. Hann kannar jarðveginn til þess að geta fyllt það tómarúm,“ segir hann.

Heimasíða Eiðs Guðnasonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert