Jón Bjarnason, sem lét af embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á gamlársdag, skipti um stjórnarformann Hafrannsóknastofnunar daginn áður, að því er kemur fram á vef Ríkisútvarpsins.
Segir þar að Friðriki Má Baldurssyni hafi verið tilkynnt í símtali 29. desember að ráðherrann vildi að hann segði af sér. Engin ástæða var gefin upp önnur en að Jón vildi skipa nýjan stjórnarformann. Friðrik baðst lausnar á föstudaginn og var nýr formaður skipaður samdægurs, Erla Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sjávariðjunnar á Rifi.
Á vef Rúv er haft eftir Jóni að engar sérstakar ástæður hafi verið fyrir því að Friðrik var beðinn að hætta.