Styrmir: Forsetinn öflugur liðsmaður

Styrmir Gunnarsson
Styrmir Gunnarsson Ragnar Axelsson

„Stuðningur Ólafs Ragnars við málstað okkar, sem berjumst gegn aðild, mun hafa víðtæk áhrif, ekki sízt í röðum vinstrisinnaðra kjósenda, bæði meðal þeirra, sem hafa stutt Vinstri græna, en líka annarra, sem hafa greitt Samfylkingunni atkvæði,“ segir Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, um mögulega baráttu forsetans gegn ESB-aðild Íslands.

Styrmir skrifar dag hvern pistil á vef Evrópuvaktarinnar og gerir nú að umtalsefni skrif Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu í kjölfar nýársávarps forsetans.

„Ólafur Ragnar hefur á þeim árum, sem hann hefur gegnt forsetaembætti, byggt upp mikil tengsl við áhrifamenn víða um lönd. Þau tengsl munu nýtast vel í baráttunni gegn aðild Íslands að ESB,“ skrifar Styrmir.

Úrslitaorrusta í vændum?

Sem kunnugt er hafa spunnist mikilar umræður um hvort forsetinn hyggist gefa kost á sér til endurkjörs fimmta kjörtímabilið í röð eður ei.

Má í þessu samhengi rifja upp að hinn 14. september sl. skrifaði Styrmir pistil þar sem hann sagði marga sjálfstæðismenn vel geta hugsað sér að kjósa forsetann um leið og hann spáði allsherjar uppgjöri vinstrimanna, færi svo að forsetinn byði sig fram á ný.

„Er framundan eitt allsherjar uppgjör vinstrimanna á Íslandi í kosningum á næstu tveimur árum? Það er freistandi að ætla að svo sé. Forsetinn og ráðherrarnir í fyrstu ómenguðu vinstristjórn Íslandssögunnar eru komnir í hár saman. Það er augljóst að Ólafur Ragnar vill vera forseti áfram. Hann telur vænlegasta kostinn til þess að berja svo á fyrri samherjum sínum í Alþýðubandalaginu að hann hljóti vinsældir út á það meðal sjálfstæðismanna og nái endurkjöri út á stuðning þeirra.

Þetta er ekki alveg galin hugmynd hjá forsetanum. Það eru ótrúlega margir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins tilbúnir til að veita honum stuðning vegna framgöngu hans í Icesave-málinu. Eftir því, sem hann skammar ráðherrana í núverandi ríkisstjórn meira fyrir aumingjaskap þeirra í Icesave-málinu, er líklegt að fylgi hans í kjósendahópi Sjálfstæðisflokksins vaxi. Þetta er óneitanlega athyglisverð þróun.

Úrslitaorustan verður háð í forsetakosningunum á næsta ári. Þá munu vinstrimenn tjalda öllu til í því skyni að fella Ólaf Ragnar. Það verður svokallaður leðjuslagur. Verði þeim að góðu.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert