Telur forsetann eiga stuðning vísan

Gísli Árnason.
Gísli Árnason. mbl.is

Gísli Árnason, formaður félags stjórnar VG í Skagafirði, telur allar líkur á að hreyfing sem berjist gegn aðild Íslands að ESB, undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, myndi uppskera ríkulegan stuðning. Tómarúm sé á vinstri vængnum í baráttunni gegn ESB.

En eins og fram hefur komið á mbl.is sagði forsetinn í nýársávarpi sínu að brýnt væri að halda vel á málstað Íslands í erlendri umræðu í sömu málsgreininni og hann vék að umsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Ekki lengur andstaða gegn ESB innan stjórnarinnar

Gísli telur aðspurður að forsetinn myndi eiga sér marga fylgismenn sem forystumaður hreyfingar sem beitti sér gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu.

„Ég get ekki ímyndað mér annað. Það er enginn vettvangur fyrir baráttu gegn ESB-aðild á vinstri vængnum lengur. Hann er ekki lengur fyrir hendi hjá núverandi ríkisstjórn. Það er alveg á tæru.“

Forkastanleg framkoma gegn Jóni

Gísli segir brotthvarf Jóns Bjarnasonar úr ríkisstjórninni skilja eftir sig sár.

„Mér finnst það dapurt, hreint út sagt, hvernig er staðið að málum. Það er fráleitt að það skuli látið bitna á Jóni Bjarnasyni að hann sé að framfylgja stefnu flokksins. Það er forkastanlegt. Jón er ekki aðeins öflugasti maður okkar í Vinstri grænum á þessu svæði í ESB-málinu heldur tryggði hann að flokkurinn gat sætt sig á Evrópubröltið. Jón stóð ávallt keikur á móti aðild og varði skoðanir flokksins. Það gerðu aðrir ekki. Hann hefur verið eins og klettur í baráttunni,“ segir Gísli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert