Útsölutímabilið hófst formlega í verslunarmiðstöðvum Kringlunnar og Smáralindar í dag og hafa verið vel sóttar það sem af er degi.
„Þetta fer ágætlega í gang,“ segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, en útsölur hófust þar opinberlega í dag, þó einhverjir verslunareigendur hafi riðið á vaðið á milli jóla og nýárs. Sigurjón segir afgreiðslutímann í dag lengri en venjulega af því tilefni, en verslanir verði opnar til kl. 21.00 í kvöld í stað 18.30 eins og á venjulegum mánudegi.
Þrátt fyrir að rætt væri við Sigurjón snemma á mánudegi sagði hann þó nokkurn eril í Kringlunni. „Sumir vilja vera fyrstir upp á að koma að sem mestu úrvali,“ segir Sigurjón en ekki sé óeðlilegt að gera ráð fyrir að 25.000-30.000 manns sæki Kringluna heim í dag. Aðspurður segir hann það fara langt í þreföldun gestafjölda miðað við venjulegan mánudag.
Gott hljóð í kaupmönnum í Smáralind.
Hljóðið er mjög gott í kaupmönnum í Smáralind að sögn Guðrúnar Margrétar Örnólfsdóttur, markaðsstjóra verslunarmiðstöðvarinnar. Útsölurnar fari vel af stað og margir hafi reyndar byrjað á milli jóla og nýárs. Spurð um aðsóknina segir hún daginn í dag mjög góðan og aðsóknin útsöludagana sé yfirleitt á við mjög góðar helgar.