Bændasamtökin sögðu sig frá tillögum starfshóps Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um friðun á fimm tegundum svartfugla hér á landi næstu fimm árin, eftir að tillögurnar voru frágengnar. Telja samtökin þar gengið á rétt landeigenda og annarra hlunnendanotenda. Fara hefði átt aðra leið og semja við landeigendur.
Vildu semja
Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir, atvinnu- og hlunnindaráðgjafi hjá Bændasamtökunum segir hlunnindanýtingu undanskilda í lögunum. Með því að friða fuglinn í fimm ár og breyta lögunum, þá sé ljóst að þeim verði ekki breytt til baka. „Þá er farið að ganga á rétt landeigenda og hlunnendanotenda. Við í Bændasamtökunum vildum fara aðra leið.“
Hún segir að engir séu betri landverðir en þeir sem eigi landið og þeir vilji að sjálfsögðu ekki ganga of langt á þá stofna sem þeir nýta á sínum jörðum. „Því lögðum við til að farin yrði sú leið sem farin var í Vestmannaeyjum, sem felst í því að semja við fólk án lagabreytinga. En þar sem við erum í minnihluta í þessum hópi þá neyddust við til að segja okkur frá þessu.“
Starfshópurinn var skipaður fulltrúum umhverfisráðuneytisins, Náttúrufræðistofnunar, Umhverfisstofnunar, Bændasamtaka Íslands, Skotveiðifélags Íslands og Fuglaverndar auk formanns nefndar um endurskoðun laga nr. 64/1994. Skotvís og Umhverfisstofnun skiluðu séráliti um friðun álku, langvíu og stuttnefju um takmörkun á veiði þeirra næstu fimm árin í stað algjörrar friðunar.
Þyrfti frekari rannsóknir
Guðbjörg, sem fulltrúi Bændasamtaka Íslands, sagði sig frá tillögum starfshópsins eftir að tillögurnar voru frágengnar í hópnum og stendur því ekki að þeim. Í yfirlýsingu um úrsögn sem send var ráðuneytinu segir hún að þó veiðistjórnun sé af hinu góða þá sé frekari rannsókna þörf en upplýsingum um ástand stofnanna og orsakir brests í varpi sé ábótavant og úr því þurfi að bæta.