„Við höfum verið í viðræðum við ýmsa um mögulegt samstarf eins og Hreyfinguna og Borgarahreyfinguna,“ segir Sigurjón Þórðarson, formaður Frjálslynda flokksins, aðspurður hvort flokkurinn ætli að bjóða fram í næstu þingkosningum.
Hann segir að þegar hafi farið fram nokkrir viðræðufundir og gerir hann ráð fyrir því að botn fáist í það hvort af slíku samstarfi verði á næstu vikum. Einnig hafi tekið þátt í viðræðunum einstaklingar sem setið hafi í stjórnlagaráði.
Hann segir ljóst að staðan í stjórnmálunum hér á landi auki möguleika nýrra framboða sem ekki eru hluti af fjórflokknum en hættan sé að óánægjufylgið dreifist á of mörg lítil framboð sem nái ekki lágmarksfylgi til þess að fá fulltrúa á þing. Það sé ekki síst ástæðan fyrir viðræðunum.
Aðspurður hvað verði ef ekki verður af slíku samstarfi segir Sigurjón að Frjálslyndi flokkurinn stefni þá á framboð á eigin vegum. Stefnt sé að framboði, það eigi aðeins eftir að koma í ljós með hvaða hætti það verði.
Sigurjón segir að áherslur Frjálslynda flokksins séu sem fyrr á breytt fiskveiðistjórnunarkerfi og aukið frelsi í þeim efnum. Þá segir hann að staðan væri vafalaust betri í efnahagslífinu ef stefnumál flokksins fyrir síðustu kosningar um þak á verðtryggingu og auknar aflaheimildir hefðu náð fram að ganga.
Frjálsyndi flokkurinn átti fulltrúa á Alþingi á árunum 1999 til 2007 en náði hins vegar ekki nægjanlegu fylgi í þingkosningunum 2009.