Ólafur Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökunum, leggur áherslu á mikilvægi alls eftirlits með innfluttum áburði til landsins í tilefni fréttaumfjöllunar um að áburði hafi verið dreift víða um land í vor þrátt fyrir að hann hafi innihaldið kadmíum-þungmálm í meira magni en leyfilegt sé.
Ólafur veltir því ennfremur upp í samtali við mbl.is að til að mynda kunni einhverjir innflytjendur á áburði að freistast til þess, í ljósi hækkandi áburðaverðs, að flytja inn ódýrari áburð sem aftur kunni að vera lakari meðal annars með tilliti til þeirra efna sem kunna að vera í honum.
Hann bendir á að bændur treysti á þetta eftirlit, sem meðal annars fari fram hjá Matvælastofnun, og mjög mikið sé í húfi að það virki sem skyldi. Bæði séu þar hagsmunir bænda undir sem og neytenda.