„Maður getur ekki hugsað“

Hópurinn á leið í Fossdal.
Hópurinn á leið í Fossdal. mynd/Jónas Þrastarson

„Þetta gerðist svo fljótt. Maður var al­veg á fullu á hlaup­um. Svo bara tek­ur þetta mann,“ seg­ir Barði Sveins­son, bóndi á Innri-Múla á Barðaströnd, sem lenti ásamt fimm öðrum í snjóflóði í Foss­dal síðdeg­is í gær. Bet­ur fór en á horfðist og sakaði eng­an að sögn Barða.

Hóp­ur­inn var að gá að fé og var á heim­leið um fimm­leytið í gær þegar flóðið féll.

„Ég hef aldrei lent í svona. Maður get­ur ekki hugsað eða neitt. Spá­ir ekk­ert í neitt á meðan maður er í flóðinu. Ég man að maður var að velt­ast í þessu,“ seg­ir Barði, sem tel­ur að flóðið hafi verið á bil­inu 100 til 150 metra breitt og um 130 cm djúpt, þar sem það var dýpst. Kraft­ur­inn hafi verið mik­ill.

Stór fleki sunkaði niður

„Það hef­ur verið hella ofan á göml­um snjó. Svo þegar við höf­um farið út á hann þá höf­um við verið búin að hreyfa við þessu,“ seg­ir Barði spurður út í það hvað olli því að flóðið féll. Stór fleki hafi ein­fald­lega sunkað niður og menn hafi ekk­ert getað gert. Hóp­ur­inn hafi lík­lega ferðast allt að 30 metra með flóðinu.

„Þetta slapp nú af því að þetta var ekki það mik­ill snjór,“ seg­ir Barði, en ekki gerðist þörf á að kalla eft­ir aðstoð björg­un­ar­sveita.

Eng­inn slasaðist að sögn Barða, sem bend­ir á að ekk­ert grjót hafi verið þar sem flóðið féll og endaði. „Ef það hefði verið meiri snjór þarna og kom­ist niður að þess­um hjalla, þá hefði það haldið áfram niður og fram af brún. Niður í hlíð,“ seg­ir Barði. Flóðið hafi hins veg­ar stöðvast rétt fyr­ir ofan brún­ina. Hefði flóðið verið kröft­ugra hefði ekki þurft að spyrja að leiks­lok­um.

Aðspurður seg­ir hann að hóp­ur­inn hafi verið vel bú­inn og vant fólk hafi verið í ferðinni; fimm karl­ar og ein kona.

„Við vor­um búin að fara niður á Fugl­bergið, þar sem þær [kind­urn­ar] eru, að reyna ná þeim. En þær eru svo stygg­ar. Það er autt hjá þeim og þær kom­ast svo vítt um,“ seg­ir Barði. Ljóst sé að það þurfi fleiri til að sækja ærn­ar.

Fór nokkra koll­hnísa

„Við vor­um búin að fara fram dal­inn aðeins til að sleppa við þessa brekku þegar við för­um upp. Svo fór­um við niður og erum kom­in í hana miðja þegar flek­inn dett­ur niður,“ seg­ir Barði. Þetta hafi verið svaka­leg lengja.

„Ég ætlaði að reyna að hlaupa inn með hlíðinni. Ég hélt að þetta væri bara bút­ur fyr­ir ofan okk­ur. En þetta er bara augna­blik, þá er maður kom­inn á kaf og velt­ist með því,“ seg­ir Barði sem seg­ist hafa farið nokkra koll­hnísa með flóðinu. Þegar niður var komið var snjólagið það þunnt að hann gat staðið upp af sjálfs­dáðum.

„Það var stelpa með okk­ur; það þurfti að toga hana,“ seg­ir Barði. Aðspurður seg­ir hann að hún hafi legið á mag­an­um og höfuðið á henni hafi snúið fram. Aðrir hafi sloppið vel.

Hund­arn­ir forðuðu sér

Þá voru tveir hund­ar með í för. Barði seg­ir að þeir hafi lík­lega verið bún­ir að forða sér áður en flóðið féll. „Þeir hafa sjálfsagt verið farn­ir frá. Passað sig,“ seg­ir Barði.

Aðspurður seg­ir Barði að sér líði ágæt­lega þrátt fyr­ir drama­tík gær­dags­ins.

„Við reyn­um að fara ein­hvern tím­ann í aðra ferð. Maður fer að skjóta þetta niður ef tíðin fer ekki að skána. Þær hafa ekki enda­lausa beit,“ seg­ir Barði og bæt­ir við að enn sem komið er líði kind­un­um ágæt­lega.

Auk Barða voru Jón­as Þrast­ar­son, Erl­ing­ur Þór Tryggva­son, Hall­gerður Kata Óðins­dótt­ir, Sveinn Jó­hann Þórðar­son og Ásgeir Sveins­son í hópn­um.

Snjóflóðið sem fólkið lenti í.
Snjóflóðið sem fólkið lenti í. mynd/​Jón­as Þrast­ar­son
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert