„Maður getur ekki hugsað“

Hópurinn á leið í Fossdal.
Hópurinn á leið í Fossdal. mynd/Jónas Þrastarson

„Þetta gerðist svo fljótt. Maður var alveg á fullu á hlaupum. Svo bara tekur þetta mann,“ segir Barði Sveinsson, bóndi á Innri-Múla á Barðaströnd, sem lenti ásamt fimm öðrum í snjóflóði í Fossdal síðdegis í gær. Betur fór en á horfðist og sakaði engan að sögn Barða.

Hópurinn var að gá að fé og var á heimleið um fimmleytið í gær þegar flóðið féll.

„Ég hef aldrei lent í svona. Maður getur ekki hugsað eða neitt. Spáir ekkert í neitt á meðan maður er í flóðinu. Ég man að maður var að veltast í þessu,“ segir Barði, sem telur að flóðið hafi verið á bilinu 100 til 150 metra breitt og um 130 cm djúpt, þar sem það var dýpst. Krafturinn hafi verið mikill.

Stór fleki sunkaði niður

„Það hefur verið hella ofan á gömlum snjó. Svo þegar við höfum farið út á hann þá höfum við verið búin að hreyfa við þessu,“ segir Barði spurður út í það hvað olli því að flóðið féll. Stór fleki hafi einfaldlega sunkað niður og menn hafi ekkert getað gert. Hópurinn hafi líklega ferðast allt að 30 metra með flóðinu.

„Þetta slapp nú af því að þetta var ekki það mikill snjór,“ segir Barði, en ekki gerðist þörf á að kalla eftir aðstoð björgunarsveita.

Enginn slasaðist að sögn Barða, sem bendir á að ekkert grjót hafi verið þar sem flóðið féll og endaði. „Ef það hefði verið meiri snjór þarna og komist niður að þessum hjalla, þá hefði það haldið áfram niður og fram af brún. Niður í hlíð,“ segir Barði. Flóðið hafi hins vegar stöðvast rétt fyrir ofan brúnina. Hefði flóðið verið kröftugra hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum.

Aðspurður segir hann að hópurinn hafi verið vel búinn og vant fólk hafi verið í ferðinni; fimm karlar og ein kona.

„Við vorum búin að fara niður á Fuglbergið, þar sem þær [kindurnar] eru, að reyna ná þeim. En þær eru svo styggar. Það er autt hjá þeim og þær komast svo vítt um,“ segir Barði. Ljóst sé að það þurfi fleiri til að sækja ærnar.

Fór nokkra kollhnísa

„Við vorum búin að fara fram dalinn aðeins til að sleppa við þessa brekku þegar við förum upp. Svo fórum við niður og erum komin í hana miðja þegar flekinn dettur niður,“ segir Barði. Þetta hafi verið svakaleg lengja.

„Ég ætlaði að reyna að hlaupa inn með hlíðinni. Ég hélt að þetta væri bara bútur fyrir ofan okkur. En þetta er bara augnablik, þá er maður kominn á kaf og veltist með því,“ segir Barði sem segist hafa farið nokkra kollhnísa með flóðinu. Þegar niður var komið var snjólagið það þunnt að hann gat staðið upp af sjálfsdáðum.

„Það var stelpa með okkur; það þurfti að toga hana,“ segir Barði. Aðspurður segir hann að hún hafi legið á maganum og höfuðið á henni hafi snúið fram. Aðrir hafi sloppið vel.

Hundarnir forðuðu sér

Þá voru tveir hundar með í för. Barði segir að þeir hafi líklega verið búnir að forða sér áður en flóðið féll. „Þeir hafa sjálfsagt verið farnir frá. Passað sig,“ segir Barði.

Aðspurður segir Barði að sér líði ágætlega þrátt fyrir dramatík gærdagsins.

„Við reynum að fara einhvern tímann í aðra ferð. Maður fer að skjóta þetta niður ef tíðin fer ekki að skána. Þær hafa ekki endalausa beit,“ segir Barði og bætir við að enn sem komið er líði kindunum ágætlega.

Auk Barða voru Jónas Þrastarson, Erlingur Þór Tryggvason, Hallgerður Kata Óðinsdóttir, Sveinn Jóhann Þórðarson og Ásgeir Sveinsson í hópnum.

Snjóflóðið sem fólkið lenti í.
Snjóflóðið sem fólkið lenti í. mynd/Jónas Þrastarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka