MAST upplýsti ekki um mengun

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. Rax / Ragnar Axelsson

Matvælastofnun kaus að bíða með að upplýsa að áburði, sem innihélt kadmíum þungmálm langt yfir leyfilegum mörkum, hefði verið dreift í verulegu magni víða um land síðastliðið vor. Um er að ræða áburð sem Skeljungur hefur dreift og gengur undir nafninu Sprettur en hann hefur meðal annars verið notaður af Landgræðslu ríkisins.

MAST sér um eftirlit með innfluttum áburði til landsins og rannsóknir í þeim efnum. Skýrsla um málið var birt á vegum stofnunarinnar í desember síðastliðnum þar sem meðal annars kom fram að af þrettán sýnum sem tekin voru síðastliðið vor hafi kadmíum innihald verið of hátt í ellefu. Í sumum tilfellum var innihaldið meira en þrefalt það magn sem leyfilegt er hér á landi. Í kjölfarið bannaði MAST sölu og dreifingu á áburðinum þar til frekari rannsóknir hefðu farið fram.

Í samtali við Bændablaðið segir Valgeir Bjarnason, sérfræðingur áburðar- og fóðureftirlits hjá MAST, að ástæður þess að ekki hafi verið upplýst um málið fyrr hafi meðal annars verið þær  að komið hefði á óvart að áburður Skeljungs hefði verið mengaður þar sem það hefði ekki gerst áður.

Þá hefði áburðurinn þegar verið kominn í dreifingu og erfitt hefði orðið að útvega annan áburð tímanlega í staðinn. Þá hefði nýverið gosið í Grímsvötnum og erfitt tíðarfar verið víða. Því hefði ekki þótt ábætandi að valda frekari erfiðleikum og hugsanlegum áburðarskorti. Ennfremur hefði þurft að virða andmælarétt Skeljungs í málinu.

Frétt Bændablaðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert