Mikill álitshnekkir fyrir MAST

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Nú er ég ekki efnafræðingur en þetta er að mínu viti ekki hættulegt. Ef þetta væri borið á tún árum saman í þessu magni þá myndi það hins vegar safnast upp,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna.

Eins og greint hefur verið frá á mbl.is kaus Matvælastofnun að bíða með að upplýsa að áburði, sem innihélt kadmíum-þungmálm langt yfir leyfilegum mörkum, hefði verið dreift í verulegu magni víða um land síðastliðið vor.

Skýrsla um málið var birt á vegum stofnunarinnar í desember síðastliðnum þar sem meðal annars kom fram að af þrettán sýnum sem tekin voru síðastliðið vor hafi kadmíum-innihald verið of mikið í ellefu. Í kjölfarið bannaði MAST sölu og dreifingu á áburðinum þar til frekari rannsóknir hefðu farið fram.

„En það sem mér finnst vont í þessu er að Matvælastofnun, sem er okkar eftirlitsstofnun og við eigum að setja traust okkar á varðandi heilnæmi okkar framleiðslu og þar fram eftir götunum, komi með upplýsingar um málið núna níu mánuðum seinna,“ segir Haraldur.

Hann bendir á að áburðurinn sem um er að ræða hafi verið borinn á tún í júní síðastliðnum og að bændur séu farnir að gefa það hey sem aflað var af túnunum þegar þeir loksins frétta af þessu.

„Þannig að þetta er auðvitað mikill álitshnekkir fyrir MAST og það eftirlit sem stofnunin segist standa fyrir,“ segir Haraldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka