Nýtt framboð að verða til

Lilja telur að mikil skuldsetning íslenskra heimila muni verða í …
Lilja telur að mikil skuldsetning íslenskra heimila muni verða í brennidepli þjóðmálaumræðunnar í ár. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Lilja Mósesdóttir alþingismaður segir undirbúning að stofnun nýs stjórnmálaafls ganga vel og að óbreyttu megi gera ráð fyrir að það líti dagsins ljós í ár. Framboðið verði þannig orðið að veruleika fyrir þingkosningarnar vorið 2013. Hún segir fólk úr öllum flokkum koma að undirbúningnum.

„Ég hef fundið fyrir miklum flótta almennra kjósenda úr öllum flokkum. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hversu margir úr fjórflokknum eru tilbúnir að taka þátt í að stofna nýtt stjórnmálaafl þvert á fjórflokkinn,“ segir Lilja Mósesdóttir þingmaður og boðar stofnun nýs flokks í ár.

„Ég vinn ásamt öðru góðu fólki að stofnun nýs flokks í samstarfi við marga úr fjórflokknum. Að öllu óbreyttu verður flokkurinn orðinn til á næstu mánuðum,“ segir Lilja.

Ekki skilgreint sem framboð til vinstri

-Rætt er um tómarúm á vinstrivængnum. Myndi flokkurinn fylla það?

„Við erum ekki að undirbúa klofningsframboð úr „vinstriflokkunum“. Hugtökin vinstri og hægri er að búið sé að skrumskæla svo mikið að þau eru merkingarlaus. Mikill meirihluti kjósenda vill réttlæti, jöfnuð og velferð,“ segir Lilja.

Aðspurð hvort hún og félagar hennar hyggi á samstarf við Guðmund Steingrímsson svarar Lilja því til að slík samvinna sé ekki í myndinni, enda hafi Guðmundur ekki sýnt áhuga á því og óljóst er hvað hann stendur fyrir, nema ef vera skyldi ESB aðild.

„Hann hefur fyrst og fremst sýnt áhuga á samstarfi við Besta flokkinn,“ segir hún.

Mikil skuldsetning heimilanna

Lilja telur að mikil skuldsetning íslenskra heimila muni skipan stóran sess í þjóðmálaumræðunni í ár.

„Vandamálið hefur rúllað áfram án þess að það hafi sprungið framan í okkur. Nú er sá tími senn á enda. Ég held að mikil skuldsetning íslenskra heimila sé ósjálfbær og að hún sé að verða óyfirstíganlegt vandamál fyrir mjög mörg heimili. Ég spái því að stöðugt fleiri heimili sjái ekki fram úr þessari skuldsetningu.“

Tvístígandi um hvort forsetinn eigi að halda áfram

- Nú er rætt um að forsetinn ætli að stíga til hliðar. Hvaða skoðun hefur þú á málefnum forsetaembættisins?

„Ég er mjög ánægð með núverandi forseta og þá sérstaklega hvernig hann tók á Icesave-málinu. Hvað varðar framhaldið, þá er svolítið tvístígandi. Ég hefði viljað sjá Ólaf Ragnar halda áfram a.m.k. þar til Icesave málið er komið í höfn og ný stjórnarskrá tilbúin. Á sama tíma geri ég mér grein fyrir því að hann yrði öflugur, hætti hann sem forseti, í að veita stjórnmálaflokkunum aðhald.

Stjórnmálastéttin á Íslandi þarf utanaðkomandi þrýsting til að taka á foringjaræðinu, klíkuskapnum og lýðræðishallanum í landinu. Ég hugsa að bæði þjóðin og stjórmmálamenn muni hlusta á það sem Ólafur Ragnar hefur til þjóðmálanna að leggja. Hann var prófessor í stjórnmálafræði og hefur alltaf lagt mikla áherslu á að tryggja lýðræðið í sessi.“

Ný þjóðmálahreyfing forsetans ólíkleg

- Hvað með hugmyndir um að forsetinn kunni að leiða nýja stjórnmálahreyfingu?

„Ég tel slíkar hugmyndir óraunsæjar. Stofnun nýs flokks krefst gífurlega mikillar vinnu og mun setja Ólafi Ragnari ákveðnar skorður. Ég held að hann hafi frekar í huga að stofna óháða rannsóknarstofnun sem vettvang fyrir greiningu á valkostum í umhverfismálum og samfélagsþróun. Áhersla forsetans á málefni Norðurslóða bendir til þessa,“ segir Lilja. 

Lilja Mósesdóttir.
Lilja Mósesdóttir. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka