Ef fram heldur sem horfir mun Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn, Vinstrihreyfingin - grænt framboð, Hreyfingin og fyrirhugaðir flokkar Lilju Mósesdóttur annars vegar og Guðmundar Steingrímssonar hins vegar bjóða fram í næstu kosningum. Fari svo verða sjö flokkar í framboði.
Eins og rakið er í samtali um fyrirhugað framboð Lilju og félaga hennar á mbl.is er hún þeirrar skoðunar að það muni sækja fylgi til allra flokka.
Líku lagi gegnir um fyrirhugað framboð Guðmundar enda hefur komið fram í fjölmiðlum að því sé ekki ætlað að verða hefðbundinn hægri- eða vinstriflokkur.
Sé þessi greining rétt munu hinir rótgrónu flokkar tapa fylgi í allar áttir.
Það kann aftur að leiða til þess að stjórnarmyndun verður flókin eftir næstu þingkosningar, þótt auðvitað sé alltof snemmt að ræða það á þessari stundu.
Jafnvel rætt um áttunda framboðið
Evrópusambandsaðildin er annað stórt spurningarmerki. Lilja segir ekki komið að því að ræða einstök stefnumál hins fyrirhugaða framboðs og er því ótímabært að kortleggja hvernig Evrópufylgið kann að skiptast milli flokka, þar með talið nýrra framboða.
Loks verður að nefna umræðu um að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, kunni að hafa hug á því að fara aftur út í stjórnmálabaráttu og þá sem andstæðingur ESB-aðildar.
Sá langsótti möguleiki myndi flækja stöðuna enn frekar.
Þess eru víða dæmi að kjósendur geti valið milli fjölda framboða og má nefna að í Hollandi buðu síðast fram ellefu flokkar í þingkosningum, að dýraverndunarframboði meðtöldu.
Var stjórnarmyndun í Hollandi erfið.