Bregðast við samkeppni

mbl.is/Kristinn

Byggingavöruverslunin BYKO hætti með afsláttarkort fyrir einstaklinga um áramótin og hefur þess í stað lækkað verð á vörum sínum um allt að þrjátíu og fimm prósent. Er þetta meðal annars gert til að bregðast við samkeppni frá þýska fyrirtækinu Bauhaus sem opnar stærstu byggingavöruverslun landsins í vor.

„Við erum í raun að breyta verðstefnu fyrirtækisins og erum fyrst og fremst að lækka verð á öllum vörum. Við lækkum allar vörur frá einu prósenti og upp í þrjátíu og fimm prósent. Þetta er að jafnaði um tíu til fimmtán prósenta verðlækkun,“ segir Guðmundur H. Jónsson, forstjóri BYKO.

Verðlækkunin næst með því að þeir fjármunir sem fást með því að leggja niður afsláttarkerfið verða notaðir til þess að lækka álagningu á vörunum að sögn Guðmundar. Stærri viðskiptavinir fá þó eftir sem áður einhverja afslætti en á öðru sniði en verið hefur.

Inntur eftir því í Morgunblaðinu í dag hvort verðlækkunin sé tilkomin vegna innkomu Bauhaus á byggingavörumarkaðinn segir Guðmundur að það sé hluti ástæðunnar. Samkeppni á markaðnum sé að breytast og aukast og BYKO bregðist að sjálfsögðu við því.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert