„Aukinn fjöldi flokka og meiri hreyfanleiki kjósenda milli flokka hefur ekki bara átt sér stað á Íslandi, heldur verið nokkuð almenn tilhneiging í flokkakerfum í Vestur-Evrópu síðustu 40 ár,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Tilefnið er fyrirhuguð fjölgun flokka á Íslandi en eins og rakið var á mbl.is í gær gætu fimm ný stjórnmálaframboð litið dagsins ljós fyrir næstu kosningar; nýtt framboð með Lilju Mósesdóttur í fararbroddi, þá væntanlegt framboð Guðmundar Steingrímssonar og félaga, svo Lýðfrelsisflokkurinn, flokkur ESB-sinna, þá Hægri-grænir, undir forystu Guðmundar Franklíns Jónssonar, og loks Breiðfylkingin, bræðingur fólks úr Borgarahreyfingunni, Hreyfingunni, Frjálslynda flokknum, samtökum fullveldissinna og fólks úr fleiri áttum.
Sem kunnugt er eiga fimm flokkar nú sæti á Alþingi. Færi svo að öll nýju framboðin næðu tilskildu lágmarki stuðningsmanna til að geta boðið fram yrðu því tíu stjórnmálaflokkar á kjörseðli næstu þingkosninga, að óbreyttu vorið 2013.
Fjórar meginhreyfingar verið hryggjarstykkið
Ólafur rifjar upp aðdraganda íslenska flokkakerfisins.
„Síðan um 1930 hafa fjórar meginhreyfingar verið hryggjarstykkið í íslenska flokkakerfinu: hægri flokkur, þ.e. Sjálfstæðisflokkur, bænda/miðflokkur, þ.e. Framsóknarflokkur, jafnaðarmannaflokkur, þ.e. Alþýðuflokkur og Samfylking, og vinstri sósíalistar, þ.e. Kommúnistaflokkur, Sósíalistaflokkur, Alþýðubandalag og Vinstri græn.
Aðrar hreyfingar buðu stundum fram, en fram til 1971 náðu aðeins tveir slíkir flokkar á þing: Bændaflokkur á 4. áratug og Þjóðvarnarflokkur 1953. Síðan 1971 hefur hins vegar verið miklu meira umrót á kjósendamarkaði og fjöldi framboða verið frá 6-11. Síðan 1971 hafa oftast verið 5 flokkar á þingi, en þó aðeins fjórir 1978, sex flokkar 1983 og 1995 og sjö flokkar 1987, en þá kusu um 25% kjósenda aðra flokka en hina hefðbundnu fjóra - langhæsta talan frá upphafi núverandi flokkakerfis. Langlífasti „nýi“ flokkurinn var Kvennalisti, sem lifði fernar kosningar.“
Almenn tilhneiging í flokkakerfum á Vesturlöndum
Ólafur segir þróunina ekki einskorðast við Ísland.
„Aukinn fjöldi flokka og meiri hreyfanleiki kjósenda milli flokka hefur ekki bara átt sér stað á Íslandi, heldur verið nokkuð almenn tilhneiging í flokkakerfum í Vestur-Evrópu síðustu 40 ár.
„Nýju“ framboðin hafa verið af ýmsum toga. Sum tengdust m.a. beint tilraunum til sameiningar vinstri manna, t.d. Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1971 og Þjóðvaki 1995. Mörg voru leidd af foringjum sem höfðu klofið sig frá sínum „gömlu“ flokkum, t.d. Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1971, Bandalag jafnaðarmanna 1983, Borgaraflokkur 1987 og Þjóðvaki 1995.
Sum voru hugmyndaframboð úr grasrótinni, t.d. Kommúnistar og Fylkingin á 8. áratugnum, Kvennalistinn 1983, Kristilegir 1995 og Borgarahreyfingin 2009. Sum voru grín- eða háðsframboð, t.d. Framboðsflokkur 1971 og Sólskinflokkur 1979.“
Kenningar um aukinn hreyfanleika
Ólafur heldur áfram.
„Ýmsar skýringar hafa verið settar fram um aukinn fjölda flokka og meiri hreyfanleika kjósenda í kosningum. Mikilvægast er kannski að áhrif félagsgerðar á kosningahegðun hafa víða minnkað og fleiri kjósendur orðið gagnrýnir á hefðbundna flokka og stjórnmálastarfsemi.
Áhugi kjósenda á stjórnmálum hefur hins vegar ekki minnkað, þó þátttökuform hafi víða breyst,“ segir Ólafur Þ. Harðarson prófessor.