„Ég sé ekki að þessi málshöfðun í New York hafi haft annað í för með sér en milljarða fjárútlát til að knésetja menn. Það er alveg ljóst að kostnaður þeirra sem stefnt var er mörg hundruð milljónir króna,“ segir Gísli Hall, lögmaður Hannesar Smárasonar í samtali við mbl.is um málarekstur slitastjórnar Glitnis gegn sjö fyrrverandi eigendum og stjórnendum bankans.
Það var í maí árið 2010 sem slitastjórn Glitnis höfðaði skaðabótamál á hendur þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni, Hannesi Smárasyni, Ingibjörgu Pálmadóttur, Jóni Sigurðssyni, Þorsteini Jónssyni og Lárusi Welding auk endurskoðunarfyrirtækisins PriceWaterhouseCooper vegna ráðstöfunar fjár sem aflað var með skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjunum árið 2007.
Í skriflegri yfirlýsingu Gísla gagnrýnir hann orð Steinunnar Guðbjartsdóttur, formanns slitastjórnar Glitnis, í samtali við mbl.is fyrr í dag þar sem hann segir að hún lýsi málalyktum fyrir dómstólum þannig að þar hafi nánast unnist einhvers konar sigur um að stefndu í málinu viðurkenni lögsögu íslenskra dómstóla í málinu. Segir Gísli þennan málflutning ekki vera boðlegan.
Samkvæmt 41. grein laga um meðferð einkamála hafi bótamálið alltaf átt að heyra undir íslenska dómstóla. Að minnsta kosti tveir af sakborningunum sjö hafi verið með lögheimili á Íslandi auk endurskoðunarfyrirtækisins PriceWaterhouseCooper.
Þá segir Gísli í yfirlýsingu sinni að það hafi ekki verið borið undir sakborningana hvort þeir myndu samþykkja lögsögu íslenskra dómstóla en algerlega augljóst sé að þeir hefðu samþykkt það. Nokkrum vikum áður en málið var höfðað í New York hafi Glitnir höfðað skaðabótamál gegn þremur af sakborningum sjö, þeim Jóni Ásgeiri, Pálma og Lárusi, fyrir íslenskum dómstólum. Það hafi verið andmælalaust af þeirra hálfu.