Verði tillögunni um að boðað verði til landsfundar Samfylkingar í vor hafnað af lagatæknilegum ástæðum kann það að veikja stöðu Jóhönnu Sigurðardóttur sem formanns, því túlka mætti það sem svo að hún þyrði ekki að sækja umboð sitt að nýju til flokksmanna.
Þetta er mat samfylkingarmanna sem Morgunblaðið ræddi við um átökin sem upp komu á flokksstjórnarfundinum 30. desember. Í fréttaskýringu í blaðinu um þetta mál segir að viðbrögð við landsfundartillögunni hafa verið nokkuð loðin og virðist það fara eftir túlkun á lögum flokksins hvort fundinum þyrftu að fylgja formannskosningar eða ekki.
Á síðasta landsfundi var Jóhanna sjálfkjörin formaður en ekki voru allir á eitt sáttir um að ekki væri kosið, þótt enginn væri mótframbjóðandinn. Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að þau sem að baki henni standa séu ósátt við þær breytingar sem orðið hafi á áherslum flokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu. Þau vinnubrögð sem viðhöfð hafi verið kristallist í skorti á samráði og samvinnu.