Ónotatilfinning sjálfstæðismanna

Styrmir Gunnarsson
Styrmir Gunnarsson Ragnar Axelsson

„Margir sjálfstæðismenn hafa vonda tilfinningu fyrir því, að sú mynd, sem dregin var upp af flokknum og forystusveit hans í áramótaskaupi sjónvarpsins, sé sú mynd, sem of margir landsmenn hafi af flokknum í sínum huga,“ skrifar Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, í pistli um stöðu Sjálfstæðisflokksins í ársbyrjun.

Styrmir gerir mikinn fjölda óákveðinna kjósenda að umtalsefni í grein á vef Evrópuvaktarinnar, í kjölfar fréttaflutnings af nýjum framboðum fyrir næstu alþingiskosningar.

„En jafnframt er það áhyggjuefni fyrir alla flokka og það á líka við um Sjálfstæðisflokkinn hve margir kjósendur taka ekki afstöðu, hafa ekki gert upp hug sinn, ætla ekki að kjósa eða ætla að skila auðu en það er rúmlega þriðjungur kjósenda.

Það er á þessi mið, sem hin nýju framboð munu leita. Jafnframt fer ekki á milli mála, að þrátt fyrir þessar fylgistölur er óánægja innan Sjálfstæðisflokksins og efasemdir um að hann sé á réttri leið. Margir sjálfstæðismenn hafa vonda tilfinningu fyrir því, að sú mynd, sem dregin var upp af flokknum og forystusveit hans í áramótaskaupi sjónvarpsins, sé sú mynd, sem of margir landsmenn hafi af flokknum í sínum huga.

Það er enn til staðar verulegur skortur á trausti til Sjálfstæðisflokksins á meðal landsmanna. Gerir ný kynslóð í forystuliði Sjálfstæðisflokksins sér grein fyrir því? Er hún í jarðsambandi? Hefur hún hugmyndir um hvernig hún ætlar að endurheimta traust þjóðarinnar?

Þetta eru spurningar, sem margir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins spyrja sig þessa dagana. Í leit að svörum við þessum spurningum dugar ekki að vísa til vandamála annarra flokka,“ skrifar Styrmir Gunnarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert