Ritstjóri Fréttablaðsins: Skerpa skil milli frétta og auglýsinga

Fréttablaðið
Fréttablaðið mbl.is/Arnaldur

Meirihluti blaðamanna á Allt og sérblaðadeild Fréttablaðsins færist yfir til sölu- og þjónustusviðs 365 og vinnur ekki lengur hefðbundin störf blaðamanna. Ólafur Stephensen, ritstjóri blaðsins, segir að öllum verði boðið starf áfram en þeim sem ekki vilji gangast undir skipulagsbreytingarnar verði líklega sagt upp. Breytingin sé eingöngu gerð til að skerpa skil á milli frétta og auglýsinga í blaðinu.

Þeir blaðamenn sem hafa skrifað kynningarblöð sem fylgt hafa Fréttablaðinu hafa hingað til tilheyrt ritstjórn blaðsins, að sögn Ólafs. Með breytingunni sem kynnt var starfsmönnum í dag verða þeir ekki lengur blaðamenn heldur heyra undir sölu- og þjónustusvið.

„Þetta hefur verið aðgreint frá efni Fréttablaðsins og hefur verið gefið út í sérstökum blöðum sem eru ekki undir haus þess og eru á ábyrgð sölu- og þjónustusviðsins. Þekkingin og reynslan hefur hins vegar verið á ritstjórninni. Nú er umfangið orðið slíkt að okkur fannst við þyrftum að skerpa enn betur á skilum á milli frétta- og ritstjórnarefnis annars vegar og auglýsinga og kynninga hins vegar með því að færa þessa deild yfir til sölu- og þjónustusviðsins. Hún verður þannig ekki lengur hluti af ritstjórn Fréttablaðsins,“ segir Ólafur.

Öllum starfsmönnunum verður boðið starf áfram hjá 365 en ekki sem blaðamenn og heyra þeir því ekki lengur undir siðareglur Fréttablaðsins eða Blaðamannafélags Íslands. Ólafur segir að fólk sé að hugsa málið og það fái um viku til að gera það upp við sig hvort það haldi áfram. Þeir sem ekki hafi áhuga á að starfa undir sölu- og þjónustusviði fái að líkindum uppsagnarbréf.

„Réttarstaða þeirra er þá sterkari en ef þeir segja upp sjálfir. Ég vona þó að það þurfi ekki að koma til slíks. Við myndum þá líka skoða hvort það væru hugsanlega einhverjir aðrir möguleikar í stöðunni,“ segir Ólafur.

Uppfært klukkan 18.30

Að sögn Ólafs störfuðu átta manns í Allt og sérblaðadeild Fréttablaðsins og þar af voru sex konur. Gert sé ráð fyrir að sjö færi sig um set yfir í sölu- og þjónustudeildina en einn starfsmaður fer á menningardeild ritstjórnar.

Þá sé gert ráð fyrir að skipt verði um nafn á Allt til að undirstrika breytinguna. Hingað til hefur það ekki verið sérstaklega merkt sem kynningarblað en hluti efnisins í því hefur verið þannig merkt segir Ólafur.

Breytingarnar hafa ekki í för með sér launalækkun fyrir starfsmennina en einhverjar breytingar verða á kjörum þeirra að sögn Ólafs. Þeir munu ekki lengur starfa samkvæmt kjarasamningi Blaðamannafélags Íslands. Við það missa þeir ákveðin réttindi en Ólafur segir að það verði bætt upp með hækkun á grunnlaunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert