Fjölgað í slitastjórn Kaupþings

Slitastjórn Kaupþings hefur tekið yfir stjórn Kaupþings frá 1. janúar 2012 og verður Kaupþingi framvegis stýrt af einum aðila, slitastjórn, í stað tveggja áður, skilanefnd og slitastjórn. Er þetta í samræmi við lagabreytingu frá síðasta sumri og hættu skilanefndir fjármálafyrirtækja störfum um áramótin.

Slitastjórn Kaupþings óskaði eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að fjölgað yrði í slitastjórninni og hefur héraðsdómur samþykkt þá beiðni og skipað þá Jóhannes Rúnar Jóhannsson hæstaréttarlögmann og Theodór S. Sigurbergsson, löggiltan endurskoðanda, til starfa í slitastjórninni, en þeir sátu áður í skilanefnd Kaupþings.

Eftir þessar breytingar er slitastjórn Kaupþings skipuð eftirgreindum aðilum: Davíð B. Gíslasyni, Feldísi Lilju Óskarsdóttur, Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni og Theodór S. Sigurbergssyni.

„Kröfuhafar Kaupþings hafa frá upphafi lagt áherslu á að endir verði bundinn á slitameðferð Kaupþings eins fljótt og kostur er. Fjölgun í slitastjórn úr tveimur í fjóra er til þess fallin að styrkja slitastjórnina í þeim verkefnum sem framundan eru, m.a. við endurskipulagningu á rekstri Kaupþings og áframhaldandi meðferð og varðveislu eigna Kaupþings. Með breytingunni er jafnframt tryggt að samfella verði í starfsemi Kaupþings óháð þeim breytingum sem orðið hafa," segir í tilkynningu frá slitastjórn Kaupþings til kröfuhafa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert