Hollvinasamtök Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað segjast mótmæla harðlega þeim gerræðislegu áformum og hugsunum sem hafi komið fram varðandi lokun Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað í 6-8 vikur í sumar.
„Áform sem miða við að loka sjúkrasviði Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað sem er; fæðingardeild, skurðdeild og lyflækningadeild eru fáheyrð vinnubrögð og aðför og afhjúpa virðingarleysi gagnvart allri starfsemi á sjúkrahúsinu, sem er eina bráðasjúkrahúsið á Austurlandi,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.
Stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Austurlands ættu að sjá sóma sinn í því að leita frekara fjármagns og leita allra annarra leiða til að halda sjúkrahúsinu í fullri starfsemi til að tryggja öryggi allra sjúklinga og þeirra sem þangað þurfa að leita. Takist þeim það ekki ættu þeir að segja af sér,“ segir í tilkynningunni.