Á formannafundi ASÍ í morgun kom fram hörð gagnrýni á efndir ríkisstjórnarinnar gagnvart kjarasamningum frá því í vor. Nú tekur við samráðsferli þar sem þúsundir félaga sambandanna munu taka afstöðu um næstu skref í málinu.
Á fundinum kom meðal annars fram gremja vegna þess hversu lítil hækkun bóta og atvinnuleysistrygginga sé og að loforð um styrkingu og jöfnun lífeyrisréttinda hafi verið svikin. Lítið miði í þróunarverkefni um þjónustu við atvinnuleitendur og umgjörð efnahags- og atvinnumála sé með öllu óviðunandi.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, telur breytingar á ríkisstjórninni gefa veika von um að atvinnustefna stjórnvalda verði markvissari þó hugsanlega sé ríkisstjórnin veikari fyrir vikið.