Gríðarlegar verðhækkanir

Reuters

Eldsneytisverð hefur hækkað mjög mikið undanfarna daga en að sögn Magnúsar Ásgeirssonar, innkaupastjóra N1, hefur heimsmarkaðsverð hækkað gríðarlega að undanförnu auk þess sem gengi Bandaríkjadals gagnvart krónu hefur haft töluverð áhrif.

Líkt og fram kom á mbl.is fyrr í dag hefur verð á bensíni hækkað um tæpar níu krónur á einungis átta dögum og dísillítrinn hefur hækkað um tæpar átta krónur.

Um áramótin hækkuðu opinber gjöld sem hefur þau áhrif að verð á eldsneyti hækkar um 3,5 krónu. Að sögn Magnúsar er sú hækkun ekki komin að fullu út í verðlagið en það verði síðar í mánuðinum. Hann vonast þó til þess að heimsmarkaðsverð komi til með að lækka á næstu dögum á ný.

Magnús segir að tonnið af bensíni hafi hækkað í desembermánuði um tæpa fimmtíu dali. Það var 904 dalir í byrjun desember og var um áramót 950 dalir tonnið. Í dag sé það hins vegar komið í 988 Bandaríkjadali. Eins hafi Bandaríkjadalur verið tæpar 119 krónur í byrjun desember en í lok árs var dalurinn skráður rúmar 123 krónur.

Hann segir fréttir af mögulegum ófrið við Persaflóa og ákvörðun Evrópusambandsins um að hætta innflutningi á olíu frá Íran ýta undir verðhækkanir á olíumarkaði en vonast til þess að verðið eigi eftir að lækka fljótlega á ný. Þrátt fyrir að heimsmarkaðsverð á olíu hafi heldur lækkað í dag þá sé sú lækkun sáralítil.

Lítri af bensíni kostaði um 244 krónur í júlí í fyrra og hefur aldrei verið hærra, en lítrinn kostaði um 208 kr. fyrir ári.

Í dag er bensínið ódýrast hjá Orkunni þar sem lítrinn kostar 236,30 krónur en er dýrast hjá Skeljungi þar sem lítrinn kostar 238,40 krónur. Dísilolían er enn dýrari en hún er ódýrust hjá Orkunni þar sem lítrinn kostar 249,80 krónur. Dísilolían er dýrust hjá Skeljungi, sem á og rekur Orkuna, N1 og Olís en hjá þessum olíufélögum kostar lítrinn af dísil 250,80 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka