Landsbankinn hefur ríflega tvöfaldað gjaldskrá vegna leigu geymsluhólfa hjá bankanum. Má sem dæmi nefna að nú kostar 16.000 krónur að skipta um skrá í hólfi þegar lykill glatast en það kostaði áður 7.000 krónur.
Fréttavefur Morgunblaðsins hefur undir höndum bréf til viðskiptavinar vegna breytinganna. Segir þar orðrétt: „Verðskrá vegna geymsluhólfa hefur verið óbreytt í rúm 10 ár en hækkar nú til að mæta kostnaði við hólfin og þjónustu þeim tengda.“
Dæmi um 117% hækkun
Ársleiga á hólfi sem er minna en 200 fersentimetrar hækkar úr 1.400 krónum í 3.000 krónur. Hólf frá 201 og upp í 300 fersentimetra hækka úr 1.600 krónum í 3.500 krónur. Hólf í næsta flokki úr 1.900 krónum í 4.000 krónur eða um 110%. Þá hækka 401 til 600 fersentimetra hólf úr 2.300 krónum í í 5.000 krónur eða um 117%.
Þá hækkar ársleiga á 601 til 900 fersentimetra hólfum úr 3.300 krónum í 7.000 krónur og leiga á hólfum sem eru stærri en 900 fersentimetrar úr 4.400 krónum í 9.000 krónur.
Sé hólf brotið upp og skipt um skrá kostar það 30.000 krónur en áður 14.000 krónur.
Talsvert í umræðunni
Landsbankinn innheimtir gjald fyrir geymsluhólf einu sinni á ári og er fastur gjalddagi árgjalds 15. janúar en eindagi 14. febrúar ár hvert.
Bankahólf hafa talsvert verið í umræðunni að undanförnu og þá í tengslum við umræðu um að sparifjáreigendur kjósi að geyma reiðufé í hólfum fremur en að láta það bera fjármagnstekjuskatt.