Isavia hefur kynnt breytta gjaldskrá lendingargjalda og farþegagjalda á innanlandsflugvöllum. Um umtalsverða hækkun er að ræða á Reykjavíkurflugvelli.
Í tilkynningu frá Isavia kemur fram að hækkunin er í samræmi við ríkisstjórnarsamþykkt frá 5. október sl. Stefnt er að því að lendingargjöld og farþegagjöld á Reykjavíkurflugvelli verði hækkuð í tveimur áföngum til samræmis við gjaldtöku á Keflavíkurflugvelli.
Gert til að uppfylla kröfur ESA
Gjaldskrárbreytingin er m.a. gerð til þess að uppfylla kröfur ESA um samræmda gjaldtöku í innanlands- og millilandaflugi á sama flugvelli og til fjármögnunar á endurbótum og framkvæmdum á innanlandsflugvöllum.
Ný gjaldskrá tekur gildi 1. apríl nk. og verða lendingargjöld á Reykjavíkurflugvelli þá samræmd í 750 kr. á þungatonn flugvéla í innanlands- og millilandaflugi í stað 436 kr. á tonn í innanlandsflugi og 10 bandaríkjadala í millilandaflugi.
Farþegagjald á Reykjavíkurflugvelli hækkar úr 498 kr. í 850 kr. fyrir farþega 12 ára og eldri, 425 kr. fyrir börn 2-11 ára og 0 kr. fyrir börn undir 2 ára aldri en helst óbreytt á öðrum innanlandsflugvöllum.
Á flugvöllunum á Akureyri og á Egilsstöðum verða lendingargjöld fyrir millilandaflug samræmd lendingargjöldum í innanlandsflugi og verða 436 kr. á tonn. Engar aðrar breytingar verða gerðar á notendagjöldum á þessum flugvöllum eða öðrum flugvöllum innanlandskerfisins.