Minnkar svigrúm til ráðninga

Iðnaðarmaður að störfum við Hafnarfjarðarhöfn.
Iðnaðarmaður að störfum við Hafnarfjarðarhöfn. Kristinn Ingvarsson

„Það stefnir í 2,5% til 3,5% verðbólgu á tímabilinu frá desember 2011 til sama mánaðar á þessu ári. Vegna verðhækkana munu fyrirtæki þurfa að hækka verð eða hagræða. Maður sér ekki fram á að störfum muni fjölga að neinu ráði,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Eins og rakið hefur verið á mbl.is voru ýmis gjöld hækkuð um áramótin. Sumar hækkanirnar skila sér beint út í verðlagið en aðrar eiga eftir að gera það. Má í því samhengi nefna að Jörundur Jörundsson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs hjá Samskipum, boðar hækkanir á vöruflutningum vegna aukinnar álagningar á eldsneyti.

Spurður um nýgerða kjarasamninga kveðst Vilhjálmur telja að þeir haldi. Verðbólguþrýstingur verði að líkindum ekki svo mikill að forsendur samninga bresti.

Meiri hagvöxtur forsenda fleiri starfa

Hann gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki náð markmiðum um aukna fjárfestingu.

„Störfum mun ekki fjölga að ráði nema fjárfestingar fari af stað í atvinnulífinu. Ef það gerist fer allt að vinna með okkur. Peningar kæmu þá inn í landið og það getur haft áhrif til hækkunar á genginu. Við erum afar óánægð með ríkisstjórnina.

Fjárfestingin er ekki eins mikil og við vildum. Við erum ekki að horfa á 4% til 5% hagvöxt sem við þyrftum til að ná atvinnuleysi niður. Hagvöxtur hefur verið að hjakka í 2% til 2,5% og það er of lítið til að draga úr atvinnuleysi. Við erum ekki að horfa á þá sókn í atvinnulífinu, þann hagvöxt og þá fjölgun starfa sem við höfðum vænst.“

Brostin loforð

Vilhjálmur segir ríkisstjórnina ekki hafa staðið við loforð í atvinnumálum.

„Við höfum í sjálfu sér ekki orðið neinar væntingar til ríkisstjórnarinnar. Það er búið að lofa okkur svo miklu sem hefur ekki gengið eftir,“ segir Vilhjálmur Egilsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert