Kaup Viðskiptaráðs Íslands á skýrslum um stöðu íslenska hagkerfisins reyndust „dýrt spaug“, að mati Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, sem kallar eftir umræðu meðal íslenskra hagfræðinga um ráðgjöf þeirra fyrir efnahagshrunið.
Tilefni skrifanna er sýning RÚV á heimildarmyndinni Inside Job eða Innherjarán í gærkvöldi.
Hún hefst með stuttu ágripi af íslensku efnahagsbólunni og hvernig bankakerfið varð margfalt stærra en umsvif þjóðarbúsins á aðeins nokkrum árum. Er sögunni svo vikið til Wall Street á Manhattan, miðstöðvar alþjóðaviðskipta í heiminum.
Mishkin: Misráðin gagnrýni á íslenska bankakerfið
Fjallað var um skýrsluna sem Styrmir segir frá á mbl.is á sínum tíma, nánar tiltekið í maí 2006, og sagði þar meðal annars:
„Viðskiptaráð Íslands kynnti í London í gær skýrslu þeirra Fredericks Mishkins og Tryggva Þórs Herbertssonar um fjármálastöðugleika á Íslandi. Fundurinn var vel sóttur af starfsmönnum erlendra fjármálastofnana, lánshæfismatsfyrirtækja og greiningaraðila og er sambærilegur þeim sem Viðskiptaráð hélt í New York nýverið. Á fundinum fjölluðu Mishkin og Tryggvi Þór um fjármálastöðugleikann og svöruðu spurningum frá fundargestum um íslenskt hagkerfi... Fram kom í máli Mishkins að hann teldi allan samanburð á Íslandi og nýmarkaðsríkjum afar misráðinn,“ sagði í fréttinni sem byggðist á tilkynningu frá Viðskiptaráði Íslands.
Þáttur íslenskra hagfræðinga
Styrmir víkur að Íslandsþætti myndarinnar:
„Íslenzkir sérfræðingar komu óbeint við sögu í þessari mynd sem meðhöfundar tveggja þekktra sérfræðinga í Bretlandi og Bandaríkjunum að tveimur skýrslum, sem komu út um stöðu íslenzku bankanna á árunum 2006 og 2007 og bentu til þess að allt væri í góðu lagi með bankana á Íslandi. [Frederic ]Mishkin [prófessor við Kólumbíu-háskóla] átti bágt í myndinni.
Viðskiptaráð Íslands kom líka við sögu, sem verkkaupi að þessum skýrslum. Þau verkkaup reyndust dýrt spaug miðað við þær upplýsingar, sem fram komu um þóknun vegna skýrslugerðarinnar.
Hér á Evrópuvaktinni og víðar hefur verið vakin athygli á því, að lítið var um að hagfræðingar gagnrýndu þróun mála hér á Íslandi í aðdraganda hrunsins haustið 2008. Sú þögn hefur hins vegar lítið sem ekkert verið rædd, hvorki í háskólasamfélaginu hér né á öðrum vettvangi.
Má búast við því í framhaldi af sýningu þessarar heimildamyndar að hagfræðingar og aðrir fulltrúar háskólasamfélagsins tjái sig um sína hlið á málinu?
Það mátti ekki á milli sjá, hvorir áttu erfiðara með að skýra sína afstöðu, háskólakennarar í samtölum við höfunda myndarinnar eða forráðamenn fjármálafyrirtækja í yfirheyrslum hjá bandarískri þingnefnd.
Getur verið að okkar sérfræðingum vefjist tunga um tönn?!“ spyr Styrmir Gunnarsson.
Pistil ritstjórans fyrrverandi má lesa hér.