„Það getur verið mjög óheppilegt fyrir stjórnsýsluna þegar ráðherrar koma og fara, að vera alltaf með lærling á ráðherrakontórnum, það er ekki gott,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í samtali við Morgunblaðið, um þær tíðu breytingar sem orðið hafa á ráðherraskipan í ríkisstjórnum Jóhönnu Sigurðardóttur frá árinu 2009.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Ögmundur hins vegar að ekki sé hægt að alhæfa um ástæður þess að breytingar voru gerðar í ráðherrastólunum. Fram hafi komið í umfjöllun Morgunblaðsins í gær að ýmsar ástæður séu fyrir því að ráðherrar hurfu úr embætti og aðrir tóku við.
„Það urðu skipti við kosningarnar vorið 2009, eins og liggur í hlutarins eðli, og síðan varð breyting um haustið þegar ég hvarf úr ríkisstjórn vegna ágreinings um Icesave-málið. Þá urðu mikil átök innan ríkisstjórnarinnar út af því máli. Síðan varð breyting þegar hinir svokölluðu ópólitísku ráðherrar fóru úr ríkisstjórn, sem var fyrirséð að yrði einhvern tímann á kjörtímabilinu. Breytingin sem varð núna um áramótin var mér ekki að skapi, það þarf enginn að velkjast í vafa um það. Þetta er niðurstaða sem liggur fyrir og nú er að vinna að því að ríkisstjórnin standi í stykkinu og sinni þeim stefnumálum sem hún var kosin út á. Ég vil frekar sitja þar innan dyra en utan, einfaldlega vegna þess að ég vil vera þar sem ég get haft mest áhrif,“ segir Ögmundur.