Fréttaskýring: Upphafið að endalokunum?

Hart var tekist á um málefni á landsfundi Vinstri grænna …
Hart var tekist á um málefni á landsfundi Vinstri grænna sl. haust. mbl.is/Skapti

Að sögn nokkurra flokksmanna, sem hafa gegnt trúnaðarstörfum innan Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og starfað lengi með flokknum, er mikill titringur innan flokksins. Þeir flokksmenn sem Morgunblaðið hefur rætt við eru allir á einu máli um að nokkuð hafi verið um úrsagnir að undanförnu og að auki séu margir að hugsa sinn gang varðandi áframhaldandi veru í flokknum. Einn af stofnendum flokksins segir flokkinn vera á óheillabraut.

Hafsteinn Hjartarson hefur verið í VG frá stofnun og gegnt þar ýmsum trúnaðarstörfum, m.a. sem formaður VG í Kópavogi. Hann segist íhuga alvarlega að segja sig úr flokknum. „Ég tel að Vinstri græn hafi svikið öll, eða flest, loforð sem þau gáfu okkur, segir Hafsteinn og segist þar eiga m.a. við ESB-aðildina og skjaldborgina sem slá átti um heimilin. „Flestir þeirra sem ég þekki innan VG eru mjög óánægðir, því miður. Flokkurinn hefur borið stóran skaða af því sem hefur gerst undanfarið og ég veit um miklu fleiri sem eru að íhuga úrsögn.“ Hafsteinn segir að um sé að ræða mjög erfiða ákvörðun, sem ekki verði tekin nema að vel ígrunduðu máli. „Þetta er afskaplega mikið tilfinningamál.“

Dramatískar afleiðingar

„Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég heyrði af þessum ráðherrahrókeringum var: „Þetta er upphafið að endalokunum.“ Ég held að afleiðingarnar verði mjög dramatískar í næstu kosningum og að flokkurinn uppskeri lítið upp úr kjörkössunum,“ segir Lilja Mósesdóttir, sem sagði sig úr VG síðastliðið vor. Hún segist hafa heyrt um úrsagnir úr flokknum undanfarna daga, fyrst og fremst sé um að ræða ESB-andstæðinga, sem hafi bundið vonir sínar við Jón Bjarnason. „Mér skilst að það fólk sé að gefast upp núna, það er mikil reiði í þessum hópi. Fólki finnst að það sé búið að svíkja öll loforð,“ segir Lilja. Hún segir að þegar hún gegndi þingmennsku fyrir flokkinn hafi verið rætt um að nauðsynlegt væri að einn ráðherra flokksins væri andstæðingur ESB. „En það virðist ekki vera nauðsynlegt lengur.“ Atli Gíslason, sem sagði sig úr flokknum á sama tíma og Lilja, tekur í sama streng. „Það kvarnast jafnt og þétt úr flokknum. Það er fyrst og fremst vegna svikinna hugsjóna hvað varðar ESB, en einnig vegna stjórnunar efnahagsmála,“ segir Atli.

Ólafur Þ. Jónsson, Óli kommi, einn af stofnfélögum VG, sagði sig úr flokknum í fyrradag. Hann sagði það vera vegna „dekurs við ESB“ og aðfarar að Jóni Bjarnasyni.. „Þar með bætist hann í hóp allt of margra annarra sem ég met mikils,“ skrifaði Anna Ólafsdóttir Björnsson, formaður félags VG á Álftanesi.

Gott að losna við gagnrýni

„Það er eins og mörgum í flokksforystunni og nokkrum öðrum sé bara slétt sama, finnist það jafnvel gott að losna við gagnrýniraddir,“ segir í bloggi Önnu. Hún segist ekki vita til þess að um samantekin ráð fólks sé að ræða varðandi úrsagnir. „Ég held að þetta sé fyrst og fremst einstaklingsframtak. Margir segja að ef ekkert breytist þá fari þeir út. Fólk er óánægt með stjórnarsamstarfið. Við vorum fullviss um að VG yrði einarðari í andstöðu sinni við ESB. En þetta er ekkert annað en dekur við ESB,“ segir Anna.

Anna bendir á að VG vinni gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. „Mér finnst ólýðræðislegt að við skulum vera að vinna að aðild að sambandi sem hvorki við sem flokkur né fólkið í landinu kærir sig um.“

Sama óheillaþróunin

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra Alþýðubandalagsins og einn af stofnendum VG, segir að atburðir undanfarinna daga hafi verið í takt við það sem áður hafi gerst innan flokksins. „Þetta er sama áframhaldandi óheillaþróunin og verið hefur. Fólk er að tínast úr flokknum og það segir sína sögu. Það getur ekki talist vera jákvæð þróun fyrir nokkurn stjórnmálaflokk.“

„Ég hef fengið lauslegar fréttir af úrsögnum og mín persónulega skoðun er sú að þeir sem eru óánægðir með það sem hefur gerst undanfarið ættu ekki að heyja baráttuna utan flokksins, heldur innan hans,“ segir Ragnar Arnalds, fyrrverandi formaður og ráðherra Alþýðubandalagsins og félagi í VG. „Jón Bjarnason er ekki lengur ráðherra, en það er ennþá sterkt fólk innan þingflokksins sem er ákveðið í sinni afstöðu.“

Framkvæmdastýra segir ekki meira um úrsagnir núna

„Í þessari viku hafa verið nokkrar úrskráningar, en það hefur ekki verið nein hrina af úrsögnum, alls ekki. Fólk segir sig úr flokknum í hverri einustu viku og aðrir skrá sig í hann og það hefur ekkert verið meira nú en oft áður. Það sem af er þessari viku hafa tíu manns sagt sig úr flokknum,“ segir Auður Lilja Erlingsdóttir, framkvæmdastýra Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Hún segir breytingar á félagatali oft haldast í hendur við fréttaflutning af störfum flokksins, bæði jákvæðan og neikvæðan. Stundum gangi fólk úr flokknum til að lýsa vanþóknun sinni á störfum hans, aðrir vilji lýsa yfir stuðningi og skrái sig því í hann. „Sumir eru óánægðir með að Steingrímur hafi farið úr fjármálaráðuneytinu og sumir eru óánægðir með að Jón Bjarnason sé ekki lengur ráðherra. Þetta er mismunandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert